Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, hefur tjáð sig í fyrsta sinn eftir að átök brutust út milli hermanna Indlands og Kína á landamærum ríkjanna við Himalaja-fjöll. Að minnsta kosti tuttugu indverskir hermenn hafa fallið í átökunum.
Kínversk stjórnvöld saka Indverja um að hafa ráðist inn fyrir landamæri sín en indversk stjórnvöld segja að því hafi verið öfugt farið. Hermennirnir eru sagðir hafa barist á banaspjóti með kylfum og prikum en ekki skotvopnum. Mótmæli brutust út í Indlandi eftir að greint var frá mannfallinu og hafa einhverjir tekið upp á því að brenna kínverska fána og myndir af Xi Jinping, forseta Kína. BBC greinir frá.
Indversk stjórnvöld hafa staðfest mannfall úr sínum röðum en Kínverjar neita að tjá sig um það. Atvikið átti sér stað á landamærum ríkjanna í Himalaja-fjöllum á milli Tíbet-héraðs í Kína og Ladakh-héraðs á Indlandi.
Landamæri ríkjanna eru um 3.500 kílómetra löng og greinir þjóðirnar á um hvar landamærin liggi á um tuttugu mismunandi stöðum. Hefur oft slegið í brýnu á milli Kínverja og Indverja vegna þessa, en þetta er í fyrsta sinn í 45 ár sem mannfall verður.
„Dauði þeirra verður ekki til einskis. Samstaða og sjálfstæði er það sem er mikilvægast fyrir indversku þjóðina,“ sagði Modi í sjónvarpsávarpi til indversku þjóðarinnar og bætti því við að Indverjar vilji frið en séu fullfærir um að svara í sömu mynt ef þeim er ögrað eða á þá ráðist.
Nokkur spenna hefur ríkt milli ríkjanna tveggja síðan í vor, en 9. maí slösuðust nokkrir indverskir og kínverskir hermenn í átökum með hnefum og grjótkasti, en atvikið átti sér stað við Naku La í Sikkim-ríki Indlands.
Utanríkisráðuneyti ríkjanna tveggja lýstu því hins vegar yfir í síðustu viku að góður árangur hefði náðst í viðræðum þeirra til þess að leysa deiluna. Indverjar segja hins vegar að kínverskar hersveitir séu enn í hluta Galwan-dals og við Pangong Tso-vatn, sem með réttu tilheyri Indverjum. Sameinuðu þjóðirnar hafa kallað eftir friðsamlegri lausn á málinu.