Liðþjálfi í bandaríska flughernum hefur verið ákærður fyrir morð á öryggisverði í Kaliforníu-ríki. Maðurinn, Steven Carrillo, er talinn vera í öfgahægri samtökunum Boogaloo.
Carrillo er sakaður um að hafa orðið David Patrick Underwood að bana fyrir utan dómstól í Oakland á mótmælum vegna dauða George Floyd í síðasta mánuði. Þá er Carrillo einnig ákærður fyrir morðið á lögregluþjóninum Damon Gutzwiller, sem var myrtur í fyrirsátri nærri Santa Cruz 6. júní. Í báðum árásum slösuðust samstarfsmenn fórnalambanna.
Samkvæmt alríkislögreglu Bandaríkjanna notaði Carrillo eigið blóð til að skrifa skilaboð á stolna bifreið , meðal annars „boog“ og „stöðvið tvíokunina“. „Boogaloo“ er hugtak sem hægri-öfgasinnar nota til þess að vísa í ofbeldisfulla uppreisn eða yfirvofandi borgarastyrjöld í Bandaríkjunum.
Fylgismenn Boogaloo eru á móti tilvist ríkisstjórna og bera oftar en ekki á sér skotvopn.