Yfir 5.000 látnir í Svíþjóð

Karin Hildebrand, gjörgæslulæknir á Söder-sjúkrahúsinu í Stokkhólmi, sótthreinsar andlitsgrímur sem …
Karin Hildebrand, gjörgæslulæknir á Söder-sjúkrahúsinu í Stokkhólmi, sótthreinsar andlitsgrímur sem starfsfólkið ber í umgengni við kórónuveirusjúklinga. AFP

Yfir 5.000 manns eru nú látnir af völdum kórónuveirunnar í Svíþjóð, þar af eru 102 dauðsföll skráð þar í landi síðasta sólarhringinn. Eins og staðan er þegar þetta er skrifað er tala látinna 5.041 en smitaðir eru 54.562, þar af hafa 1.239 smit greinst síðasta sólarhringinn.

Sænski utanríkisráðherrann Ann Linde hefur boðað blaðamannafund klukkan 16:00 í dag að sænskum tíma þar sem farið verður yfir stöðuna og á morgun boðar Lýðheilsustofnun Svíþjóðar annan fund.

Sænska ríkisútvarpið SVT greindi frá því fyrr í dag að utanríkisráðuneytið hyggi á breytingar á ferðaráðum sínum 15. júlí og falli þá niður þau tilmæli að Svíar ferðist ekki til ákveðinna landa í Evrópu nema í atvinnskyni. Þann sama dag er gert ráð fyrir að Vasasafnið í Stokkhólmi opni dyr sínar á nýjan leik, að minnsta kosti að hluta, en það hefur verið lokað frá 20. mars.

Lýsa yfir neyðarástandi í Gällivare

Frá bænum Gällivare í Norrbotten, nyrst í Svíþjóð, berast fréttir af neyðarástandi vegna skyndilegrar og mikillar fjölgunar smitaðra og er nú svo komið að 70 prósent starfsmanna sveitarfélagsins eru í veikindafríi vegna kórónuveirueinkenna. Af 650 sýnum sem tekin hafa verið síðustu daga hafa 128 reynst jákvæð.

„Þetta dreifir sér hratt. Í Gällivare er hæsta hlutfall smitaðra íbúa í öllu Norrbotten,“ segir Stefan Nieminen, upplýsingafulltrúi neyðarteymis bæjarins (krisledningsgruppen), við SVT en íbúar bæjarins eru á níunda þúsund. Anette Viksten Åhl, félagsmálafulltrúi Gällivare, segir ástandið mjög alvarlegt og nú sé unnið að því að fara yfir alla öryggisferla auk þess að gæta ýtrasta hreinlætis í sóttvarnaskyni.

Þá segir Henrik Ölvebo bæjarstjóri fjölda fyrirtækja í Gällivare hafa verið lokað, þar á meðal sundlaugum, íþróttahúsum og bókasöfnum. Í fréttatilkynningu frá sveitarfélaginu segir að kórónuveiran dreifi sér nú stjórnlaust í bænum: „Við glímum við stjórnlausa og háskalega útbreiðslu Covid-19 í bænum [...] Við hvetjum til ýtrustu varkárni. Allir verða að taka ábyrgð og leggjast á eitt við að hemja útbreiðsluna. Hér ríkir neyðarástand,“ segir meðal annars í tilkynningunni.

SVT

Aftonbladet

Dagens Nyheter 

Svenska Dagbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert