Hnífaárás í almenningsgarði í Reading á Englandi í gær þar sem þrír létu lífið er rannsökuð sem hryðjuverk. Lögregla hafði áður gefið út að svo væri ekki.
Þrír létust og þrír særðust alvarlega í hnífaárás í Forbury almenningsgarðinum í gærkvöldi. 25 ára karlmaður hefur verið handtekinn, grunaður um árásina.
Samkvæmt heimildum BBC er árásarmaðurinn frá Líbýu og hefur hann setið í fangelsi á Englandi fyrir minniháttar brot. Hryðjuverkadeild lögreglunnar hefur tekið við rannsókninni og verða Priti Patel innanríkisráðherra og Boris Johnson forsætisráðherra upplýst um gang mála.