Grafið undan Sigmundi

Frá Þórshöfn, höfuðstað Færeyja.
Frá Þórshöfn, höfuðstað Færeyja. mbl.is/Björn Jóhann

Uppgröftur tveggja kirkna í kirkjugarði í Velbastað í Straumey í Færeyjum hefur grafið undan viðtekinni sagnfræði um uppruna kristni í Færeyjum.

Því hefur jafnan verið haldið fram að kristni hafi borist til Færeyja með víkingahöfðingjanum Sigmundi Brestissyni, hirðmanni Ólafs Tryggvasonar Noregskonungs, sem sigldi til Færeyja vorið 999, þvingaði höfðingjann Þránd í Götu til að taka skírn og breiddi út trúna, en frá þessu er greint í Færeyinga sögu. Uppgreftirnir nú benda þó til þess að kristnir menn hafi búið í eyjunum hundrað árum fyrr.

Færeyska ríkisútvarpið, Kringvarpið, greinir frá þessu og segir að svæðið á Velbastað hafi lengi verið fornleifafræðingum hugleikið.

Uppgröfturinn í Velbastað í Færeyjum.
Uppgröfturinn í Velbastað í Færeyjum. Ljósmynd/Tjóðsavnið

„Við höfum vitað af annarri kirkjunni í nokkurn tíma,“ hefur Kringvarpið eftir Helga Michelsen, safnstjóra hjá Tjóðsavni Færeyja. „Það sem er nýtt í þessu er að við uppgröft á þessari kirkju rákumst við á aðra og enn eldri kirkju eða hugsanlega kapellu, undir henni.“

Undir steingólfinu hafi fornleifafræðingar fundið sviðið bygg en kolefnisrannsókn leitt í ljós að það sé frá tímabilinu 765 til 905. „Þetta gefur vísbendingu um að það hafi ekki endilega verið einn maður, Sigmundur Brestisson, sem kristnaði alla þjóðina samtímis. Nú lítur út fyrir að kristnir menn hafi lifað samhliða heiðnum mönnum í meira en öld áður en Sigmundur kom til sögunnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert