Faraldurinn á enn eftir að ná hámarki víða

Sérfræðingar á sviði heilbrigðismála áætla að enn eigi kórónuveirufaraldurinn eftir …
Sérfræðingar á sviði heilbrigðismála áætla að enn eigi kórónuveirufaraldurinn eftir að ná hámarki í mörgum ríkjum. AFP

Yfir 475 þúsund hafa látið lífið af völdum COVID-19, sjúkdómsins sem kórónuveiran veldur, á heimsvísu. Fjöldi dauðsfalla hefur tvöfaldast síðustu tvo mánuði og er nú 477.643 samkvæmt nýuppfærðum opinberum tölum. Staðfest smit nálgast 9,3 milljónir.  

Evrópa hefur orðið verst úti í faraldrinum þar sem 193.800 hafa látið lífið og yfir 2,5 milljónir greinst. Þar á eftir koma Bandaríkin með 2,3 milljónir staðfestra smita og 121.225 dauðsföll. Faraldurinn er í mestum vexti í Suður-Ameríku þessa stundina og er tala látinna þar komin yfir 100 þúsund og tilfelli yfir 2,1 milljón. 

Sérfræðingar á sviði heilbrigðismála áætla að enn eigi faraldurinn eftir að ná hámarki í mörgum ríkjum. Tedros Adhanom Ghebr­eyes­us, yf­ir­maður Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­ar­inn­ar (WHO), tekur undir þær fullyrðingar og segir að áhrifa hans mun gæta næstu ára­tugi. Hann segir helstu ógn­ina ekki staf­a af veirunni sjálfri held­ur „skorti á sam­stöðu og leiðtoga­hæfni á alþjóðavett­vangi“.  

Faraldurinn er í mestum vexti í Suður-Ameríku þessa stundina og …
Faraldurinn er í mestum vexti í Suður-Ameríku þessa stundina og er tala látinna þar komin yfir 100 þúsund og tilfelli yfir 2,1 milljón. AFP

Helstu sér­fræðing­ar Banda­ríkja­stjórn­ar í smit­sjúk­dóm­um vara sömuleiðis við vexti faraldursins. Dr. Ant­hony Fauci, sem leiðir sótt­varnateymi Hvíta húss­ins, segir að næstu dag­ar muni skipta sköp­um til að stemma stigu við far­aldr­in­um.

Önnur bylgja gerir vart við sig

Varað hefur verið við annarri bylgju veirunnar í fjölmörgum ríkjum og nú virðist sem hún sé að gera vart við sig í Þýskalandi. Yfir 1.300 starfsmenn sláturhúss í Gütersloh í Norður­rín-Vest­fal­íu, fjórða stærsta sam­bands­ríki Þýska­lands. Útgöngubann hefur verið sett á í tveimur héruðum ríkisins og nær það til um 760 þúsund íbúa. Þá hefur samkomutakmörkunum verið komið á að nýju á norðausturhluta Spánar. 

Íbúar í Ástralíu eru einnig farnir að finna fyrir annarri bylgju faraldursins og hefur herinn verið kallaður út í Melbourne til að stemma sigu við útbreiðslunni. 

Tugir tilfella hafa greinst í Viktoríufylki síðustu daga og erfiðlega gengur að rekja uppruna þeirra. Herinn mun meðal annars aðstoða við sýnatöku. Fyrsta dauðsfallið af völdum veirunnar í meira en mánuð varð í vikunni þegar maður á níræðisaldri lést.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert