Yfir 475 þúsund hafa látið lífið af völdum COVID-19, sjúkdómsins sem kórónuveiran veldur, á heimsvísu. Fjöldi dauðsfalla hefur tvöfaldast síðustu tvo mánuði og er nú 477.643 samkvæmt nýuppfærðum opinberum tölum. Staðfest smit nálgast 9,3 milljónir.
Evrópa hefur orðið verst úti í faraldrinum þar sem 193.800 hafa látið lífið og yfir 2,5 milljónir greinst. Þar á eftir koma Bandaríkin með 2,3 milljónir staðfestra smita og 121.225 dauðsföll. Faraldurinn er í mestum vexti í Suður-Ameríku þessa stundina og er tala látinna þar komin yfir 100 þúsund og tilfelli yfir 2,1 milljón.
Sérfræðingar á sviði heilbrigðismála áætla að enn eigi faraldurinn eftir að ná hámarki í mörgum ríkjum. Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), tekur undir þær fullyrðingar og segir að áhrifa hans mun gæta næstu áratugi. Hann segir helstu ógnina ekki stafa af veirunni sjálfri heldur „skorti á samstöðu og leiðtogahæfni á alþjóðavettvangi“.
Helstu sérfræðingar Bandaríkjastjórnar í smitsjúkdómum vara sömuleiðis við vexti faraldursins. Dr. Anthony Fauci, sem leiðir sóttvarnateymi Hvíta hússins, segir að næstu dagar muni skipta sköpum til að stemma stigu við faraldrinum.
Varað hefur verið við annarri bylgju veirunnar í fjölmörgum ríkjum og nú virðist sem hún sé að gera vart við sig í Þýskalandi. Yfir 1.300 starfsmenn sláturhúss í Gütersloh í Norðurrín-Vestfalíu, fjórða stærsta sambandsríki Þýskalands. Útgöngubann hefur verið sett á í tveimur héruðum ríkisins og nær það til um 760 þúsund íbúa. Þá hefur samkomutakmörkunum verið komið á að nýju á norðausturhluta Spánar.
Íbúar í Ástralíu eru einnig farnir að finna fyrir annarri bylgju faraldursins og hefur herinn verið kallaður út í Melbourne til að stemma sigu við útbreiðslunni.
Tugir tilfella hafa greinst í Viktoríufylki síðustu daga og erfiðlega gengur að rekja uppruna þeirra. Herinn mun meðal annars aðstoða við sýnatöku. Fyrsta dauðsfallið af völdum veirunnar í meira en mánuð varð í vikunni þegar maður á níræðisaldri lést.