Öfga-hægriárásum fjölgaði

Höfuðstöðvar Europol í Haag í Hollandi.
Höfuðstöðvar Europol í Haag í Hollandi. Europol

Mesta hryðjuverkaógnin innan Evrópusambandsins stafar af jihadistum og öfga-hægrihryðjuverkamönnum. Frá þessu er greint í skýrslu Evrópusambandsins um hryðjuverk, sem birt var í gær.

Hundrað og nítján hryðjuverkaárásir voru tilkynntar í þrettán aðildarríkjum Evrópusambandsins árið 2019, en þá eru taldar árásir sem heppnuðust, árásir sem misheppnuðust og árásir sem voru stöðvaðar. Flestir þeirra sem framkvæmdu hryðjuverkaárásir innan ESB voru menn á aldrinum 16 til 28 ára, á sakaskrá, og fæddir innan Evrópusambandsins.

Heildarfjöldi árása minnkaði frá síðustu árum og er lækkunin rakin til fækkunar á árásum tengdum þjóðernis- eða aðskilnaðarhreyfingum, m.a. á Spáni og í Frakklandi. Engu að síður var stærst hlutfall tilkynntra árása tengt slíkum hreyfingum. Aukning var á árásum frá lýðveldissinnum á Norður-Írlandi og öðrum jaðarhreyfingum víða um Evrópu.

Tíu manns voru drepnir í hryðjuverkaárásum innan Evrópusambandsins og tuttugu og sjö slösuðust. Þá voru 1.004 einstaklingar handteknir vegna gruns um aðild að hryðjuverkum, flestir í Belgíu, Frakklandi, Ítalíu Spáni og Bretlandi.

Árás var gerð í mosku í Bærum í Noregi.
Árás var gerð í mosku í Bærum í Noregi. Ljósmynd/Ábendinganetfang VG

Öfga-hægriárásum fjölgaði

Samkvæmt skýrslunni fjölgaði öfga-hægrihryðjuverkum á milli áranna 2018 og 2019. Árið 2019 voru sex öfga-hægrihryðjuverk tilkynnt innan Evrópusambandsins, samanborið við aðeins eitt árið áður.

Þar að auki voru öfga-hægriárásir í Christchurch á Nýja-Sjálandi, El Paso í Bandaríkjunum, Bærum í Noregi, og Halle í Þýskalandi tengd bylgju ofbeldisverka þar sem gerendur voru hluti af svipuðum alþjóðlegum samfélögum á netinu og drógu innblástur af verknaði hver annars.

Þá jukust einnig öfga-vinstriárásir á árinu 2019 og voru þær allar bundnar við Grikkland, Ítalíu og Spán, og voru yfirleitt tengdar „ofbeldisfullum mótmælum og átökum við öryggissveitir.

Kórónuveiran gæti haft áhrif

Aðstæður á stríðshrjáðum svæðum utan Evrópu héldu áfram að hafa áhrif á hryðjuverkaástand innan álfunnar, en sjö hryðjuverkaárásir tengdar jihadisma voru framkvæmdar í Evrópu árið 2019, en komið var í veg fyrir fjórtán slíkar árásir á árinu.

Í skýrslunni kemur fram að hryðjuverkaógnin í Evrópu gæti aukist þegar „hundruð Evrópskra ríkisborgara með tengsl við Íslamska Ríkið,“ sem eru enn staðsettir í Írak og Sýrlandi, halda aftur heimleiðis. Auk þess hafa myndast aðstæður innan Evrópska fangelsa þar sem jihadistar gera samfanga sína rótæka, sem eykur öryggisógnir í álfunni.

Samkvæmt Europol voru Jihadistar ábyrgir fyrir flestum dauðsföllum, sem og áverkum sem hlutust af völdum hryðjuverkaárása.

Þegar litið er til ársins 2020, er kórónuveirufaraldurinn líklegur til að breyta aðstæðum í álfunni, þegar litið er til mögulegra hryðjuverkaárása. Europol telur líkur á að efnahagsleg áhrif veirunnar muni kynda undir rótækni einstaklinga og hópa, óháð hugmyndafræðilegum bakgrunni þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert