40% íbúa Ischgl með mótefni við kórónuveirunni

Rúmlega 40% íbúa skíðaþorpsins Ischgl hafa greinst með mótefni gegn …
Rúmlega 40% íbúa skíðaþorpsins Ischgl hafa greinst með mótefni gegn kórónuveirunni. AFP

Rúm­lega 40% íbúa Ischgl í Aust­ur­ríki eru með mót­efni við kór­ónu­veirunni sam­kvæmt niður­stöðum nýrr­ar rann­sókn­ar, en aðeins brot af þeim vissi af smit­inu fyr­ir, að því er kem­ur fram í frétt á vef þýska viku­rits­ins Der Spieg­el.

Í skíðaþorp­inu Ischgl í aust­ur­rísku Ölp­un­um voru í byrj­un mars kjöraðstæður fyr­ir út­breiðslu kór­ónu­veirunn­ar. Í pökkuðum öld­ur­hús­um bæj­ar­ins söfnuðust skíðamenn sam­an eft­ir að hafa verið í brekk­un­um og veir­an átti greiða leið milli manna, sem báru hana síðan víða um lönd, meðal ann­ars til Íslands.

Ný rann­sókn sýn­ir að veir­an náði einnig mik­illi út­breiðslu meðal íbúa Ischgl. Vís­inda­menn við Lækna­há­skól­ann í Inns­bruck báðu alla íbúa þorps­ins að taka þátt í rann­sókn­inni. Á milli 21. og 27. apríl voru tek­in blóðsýni og strok­ur úr koki til að greina um­fang smits í þorp­inu. Tæp­lega 1.500 af 1.600 íbú­um tóku þátt.

Þegar sýn­in voru tek­in höfðu heil­brigðis­yf­ir­völd náð stjórn á ástand­inu og því voru aðeins sára­fá virk smit. Hins veg­ar greind­ist mót­efni gegn kór­ónu­veirunni í sýn­um úr 42,4% íbúa Ischgl. Til þess að full­vissa sig um að grein­ing­in væri rétt voru notuð fjög­ur mis­mun­andi próf á hvert sýni.

Í frétt Der Spieg­el er vitnað í stjórn­anda rann­sókn­ar­inn­ar, Dorot­hee von Laer, sem sagði á blaðamanna­fundi að ekki hafi verið sýnt fram á að ann­ars staðar hafi jafn hátt hlut­fall íbúa smit­ast, þótt verið geti að svo sé þar sem veir­an sé hvað virk­ust í Bras­il­íu og á Indlandi.

Sagði hún að þrátt fyr­ir þessa miklu út­bræðslu væri ekki um að ræða hjarðónæmi. Til þess þyrftu 60-70% íbúa að smit­ast. Engu að síður veitti þetta háa hlut­fall með mót­efni nokkra vernd.

Það vakti at­hygli við rann­sókn­ina að aðeins 15% þeirra, sem greind­ust með mót­efni, vissu af smit­inu fyr­ir og höfðu fengið grein­ingu. 85% höfðu hins veg­ar ekki fengið já­kvæða skimun. Marg­ir hefðu ekki náð í gegn í síma­ver heil­brigðis­yf­ir­valda, aðrir hefðu talið að þeir væru með vægt kvef og þá hefði verið al­gengt að fólk hefði verið með sær­indi í hálsi og hósta í tvo, þrjá daga.

Von Laer sagði að miss­ir lykt­ar- og bragðskyns virt­ist óyggj­andi merki um kór­ónu­veiru­smit. Greinst hefði mót­efni gegn veirunni hjá öllu þeim, sem lýst hefðu slík­um ein­kenn­um.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert