Eiga við „alvarlegt vandamál“ að stríða

Anthony Fauci hefur leitt sóttvarnateymi Hvíta hússins.
Anthony Fauci hefur leitt sóttvarnateymi Hvíta hússins. AFP

Dr. Anthony Fauci, sem leitt hefur stýrihóp Hvíta hússins gegn kórónuveirufaraldrinum, sagði í gær að Bandaríkin stæðu frammi fyrir „alvarlegu vandamáli“ vegna veirunnar. Texas- og Flórída-ríki hafa bæði skipað börum að hætta að veita áfengi, en fjöldi nýrra tilfella í ríkjunum hefur aldrei verið meiri. 

Um það bil 50 milljón manns búa samtals í ríkjunum tveimur, en þau þóttu komast tiltölulega létt frá faraldrinum í vor. Voru ríkisstjórar beggja ríkja því í fararbroddi þeirra sem vildu létta á samkomubanni tiltölulega fljótt á ný, jafnvel þó að ekki hefði tekist að ná fullum tökum á faraldrinum. 

Nærri því 125.000 manns hafa nú látist af völdum kórónuveirunnar í Bandaríkjunum, en það er langhæsta dánartala vegna faraldursins í heiminum til þessa. Ólíkt Evrópu hefur fyrsta bylgja faraldursins í Bandaríkjunum ekki náð að hjaðna niður, og sagði Mike Pence varaforseti í dag að nýjum tilfellum veirunnar í Bandaríkjunum hefði fjölgað um meira en 40.000 á einum degi.

Á fyrsta blaðamannafundi Hvíta hússins um ástandið í tvo mánuði lagði Fauci hins vegar áherslu á að landið allt væri samtengt, og að þau svæði sem nú stæðu betur gætu ekki gengið að neinu vísu. „Eina leiðin fyrir okkur til að binda endi á þetta er ef við gerum það saman,“ sagði Fauci.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert