Beindu byssum að mótmælendum sem áttu leið hjá

Friðsælum mótmælendum í St. Louis var brugðið á leið þeirra að húsnæði borgarstjórans á sunnudag þegar íbúar einbýlishúss, hjón, sem þeir gengu fram hjá komu út úr húsi sínu og beindu að þeim hálfsjálfvirkum riffli annars vegar og skambyssu hins vegar.

Myndskeið sem náðist af atvikinu hefur farið eins og eldur um sinu á netinu og er sagt sýna svart á hvítu þann klofning sem myndast hefur í bandarísku samfélagi.

Mark og Patricia McCloskey komust í bæjarmiðlana fyrir um tveimur árum þegar þau afhjúpuðu sögulegt og mikilfenglegt heimili sitt eftir áratugalangar endurbætur. Athyglin sem þau fá nú er heldur neikvæðari, en þau segjast hafa óttast um líf sitt þegar mótmælendur „brutu sér leið“ inn í götuna þeirra, sem er lokuð almenningi.

Á myndskeiðum af atvikinu þykir hins vegar nokkuð ljóst að hjónunum hafi ekki stafað nokkur ógn af mótmælendunum sem áttu leið hjá, og segja það ekki óalgengt að í mótmælum, þó friðsæl séu, séu reglur brotnar. Engum hafi þó stafað hætta af þeim þó þau hafi ákveðið að ganga lokaða götu á leið sinni að heimili borgarstjóra St. Louis.

Skotvopnalöggjöfin í Missouri er ein sú frjálslyndasta í öllum Bandaríkjunum, auk þess sem lög segja til um rétt fólks til að skjóta óboðna gesti á heimili þess til bana undir ákveðnum kringumstæðum.

Sérfræðingur sem Washington Post ræddi við vegna atviksins segir að McCloskey-hjónin hafi hugsanlega oftúlkað lögin og að einkalóð þeirra nái ekki til allrar götunnar þó lokuð sé. Þá sé ólíklegt að reglur um lokaðar götur vegi þyngra en lög St. Louis-borgar um að ekki megi beina skotvopnum að fólki til að hræða fólk.

Mark og Patricia McCloskey komust í bæjarmiðlana fyrir um tveimur …
Mark og Patricia McCloskey komust í bæjarmiðlana fyrir um tveimur árum þegar þau afhjúpuðu sögulegt og mikilfenglegt heimili sitt eftir áratugalangar endurbætur. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert