Lýðræðissinnar flýja Hong Kong

Öryggislögunum var mótmælt á þriðjudag.
Öryggislögunum var mótmælt á þriðjudag. AFP

Einn helsti baráttumaður Hong Kong fyrir lýðræði sjálfstjórnarsvæðisins hefur flúið svæðið eftir að ný öryggislög tóku gildi fyrr í vikunni. 

Nathan Law, sem sat inni eftir hin svokölluðu Regnhlífarmótmæli árið 2014, sagði í samtali við BBC að hann hyggðist halda baráttu sinni áfram erlendis frá. 

„Ég held að hreyfingin lifi enn. Íbúar Hong Kong munu ekki gefast upp,“ segir Law. 

Fullveldi Hong Kong færðist frá Bretum og aftur til Kínverja árið 1997 og ákveðin réttindi íbúa áttu að vera tryggð til að minnsta kosti 50 ára í „eitt land, tvö kerfi“ fyrirkomulaginu. 

Nýju öryggislögin kveða á um bann við uppreisnaráróðri, landráði og sjálfstæðisumleitunum Hong Kong, auk þess sem málfrelsi og réttur til að mótmæla eru verulega skert með lögunum. 

Lögreglan í Hong Kong hefur ákært einn eftir að lögin tóku gildi. „24 ára maður sem búsettur er í borginni var handtekinn fyrir að hvetja aðra til sjálfstæðisumleitana og vegna gruns um hryðjuverkastarfsemi,“ segir í stuttri tilkynningu lögreglu. 

Law ávarpaði öldungadeildarþingmenn Bandaríkjanna á myndbandsfundi á miðvikudag og lýsti yfir áhyggjum sínum af stöðunni. Hann sagðist óttast það að snúa aftur til Hong Kong. „Það er margt sem hefur tapast í borginni sem ég elska: frelsið til að segja sannleikann,“ sagði Law. 

Í yfirlýsingu sinni á fimmtudag sagðist Law ekki vilja segja hvar hann heldur nú til af ótta við að vera handtekinn. 

Árið 2016 var Law yngsti löggjafi svæðisins. Hann beitti sér fyrir því að íbúar Hong Kong fengu að kjósa um framtíð sjálfstjórnarhéraðsins og hann sagðist óttast að Hong Kong yrði „bara enn önnur kínversk borg.“ Law missti stöðu sína skömmu síðar þar sem hann þótti ekki hafa strengt embættiseið sinn með réttum hætti. 

10 hafa verið handteknir á grundvelli nýju laganna síðan þau tóku gildi 1. júlí. Frá því að lögin tóku gildi hafa yfirvöld í Hong Kong tilkynnt um það að slagorðið „Frelsum Hong Kong, bylting okkar tíma,“ sé núna ólöglegt. 



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert