Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO, gaf það út í dag að stofnunin myndi taka það til skoðunar hvort að kórónuveiran geti borist með lofti, eftir að hópur vísindamanna frá 32 löndum komst að þeirri niðurstöðu og birti í opnu bréfi.
WHO sagði að stofnunin myndi gefa út á næstu dögum samantekt um þekkingu sem til staðar er um það hvort veiran geti borist með lofti. Víða um heim hefur tveggja metra reglan svokallaða verið í gildi til að koma í veg fyrir að fólk smiti hvort annað með úða- eða dropasmiti.
Vísindamennirnir, sem eru 239 talsins og koma frá 32 löndum, segja hins vegar að veiran geti borist með lofti mun lengra en tvo metra. Þeir segja að dropar fari út í andrúmsloftið þegar manneskja andar frá sér. Dropar sem er undir fimm míkrómetra að stærð geti verið í loftinu í nokkrar klukkustundir og ferðast tugi metra án þess að falla til jarðar.
„Við gerum okkur grein fyrir því að það eru að koma í ljós sönnunargögn fyrir þessu. Þar af leiðandi verðum við að vera opin fyrir þessum möguleika og reyna að skilja hvað þetta þýðir fyrir smitleiðir og einnig fyrir smitvarnir,“ sagði Benedetta Allegranzi, tæknilegur sérfræðingur í smitvörnum hjá WHO, á fjarblaðamannafundi í dag.
Tedros Adhanom Ghebreyesu, forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar WHO, sagði í dag að faraldurinn sýndi engin merki þess að hann væri í rénun, enda hefðu 400 þúsund ný smit greinst um helgina síðustu.
„Faraldurinn er að færast í aukana og við höfum augljóslega ekki náð toppnum á kúrfunni,“ sagði forstjórinn.