Ekkert samkomulag í Brussel

Angela Merkel Þýskalandskanslari og Emmanuel Macron Frakklandsforseti á fundinum í …
Angela Merkel Þýskalandskanslari og Emmanuel Macron Frakklandsforseti á fundinum í gær. Sóttvarnir eru í hávegum hafðar í Brussel. AFP

Ekkert samkomulag er í höfn á leiðtogafundi Evrópusambandsins sem stendur yfir í Brussel. Á fundinum freista leiðtogar aðildarríkjanna 27 þess að ná saman um fyrirkomulag svonefnds björgunarpakka  til stuðnings þeim ríkj­um sem verst hafa farið út úr kór­ónu­veirufar­aldr­in­um. Upphafleg tillaga framkvæmdastjórnar sambandsins hljóðaði upp á 750 milljarða evra, sem deilt yrði til ríkja ýmist í formi láns eða styrkja.

Djúpstæður ágreiningur ríkir milli leiðtoga ríkja í suðurhluta álfunnar og hóps ríkja úr norðurhlutanum, Hollands, Svíþjóðar, Danmerkur, Finnlands og Austurríkis, sem hafa viljað fara hægar í sakirnar, minnka aðgerðarpakkann og skilyrða lánveitingar við það að sambandið hafi stjórn á því hvernig fénu er varið.

Fundurinn hófst á föstudag og átti honum að ljúka í gær, sunnudag. Þar sem engin niðurstaða liggur fyrir verður honum framhaldið í dag og hefst fundur klukkan tvö að íslenskum tíma. Er þetta nú lengsti leiðtogafundur sambandsins frá árinu 2000 þegar fundur í Nice stóð í fimm daga.

„Ég get ekki enn sagt til um það hvort við komumst að niðurstöðu. Það er mikill velvilji hér en líka ólík sjónarmið,“ sagði Angela Merkel Þýskalandskanslari við blaðamenn í höfuðstöðvum leiðtogaráðsins í Brussel í gær.

Er það síst orðum ofaukið að sjónarmiðiðin séu ólík. Leiðtogar suðrænni ríkja bandalagsins hafa kallað eftir samstöðu og gagnrýnt þá sem leggjast gegn samkomulaginu. Sagði Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, að Evrópa væri „kúguð af hinum sparsömu ríkjum (e. frugals)“ og vísaði þá til Hollands, Svíþjóðar, Danmerkur, Finnlands og Austurríkis sem hafa tekið að sér aðhaldshlutverk innan ráðsins.

Þá hefur Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, sakað Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, um að hafa horn í síðu Ungverja og hans sjálfs. „Ég veit ekki hver er ástæða þess að hollenski forsætisráðherrann hatar mig eða Ungverjaland, en árásir hans eru svo ákafar og hann hefur gert það skýrt að í hans augum virði Ungverjaland ekki réttarríkið og eigi því skilið að vera refsað fjárhagslega,“ sagði Orban. Rutte hefur einmitt látið hafa eftir sér að virðing fyrir réttarríkinu sé eitt af þeim stóru málum sem þurfi að tryggja áður en samið verður um nokkrar lán- eða styrkveitingar.

Charles Michel, forseti leiðtogaráðsins, fundar með leiðtogum Ungverjalands, Póllands, Tékklands …
Charles Michel, forseti leiðtogaráðsins, fundar með leiðtogum Ungverjalands, Póllands, Tékklands og Slóvakíu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka