Hatrömm átök í Portland

AFP

Mótmæli hafa geisað í Portland í Oregon-ríki í Bandaríkjunum í tæpar sex vikur, síðan George Floyd var myrtur í Minneapolis í maí. Víða hefur verið mótmælt í Bandaríkjunum á síðustu vikum, en þótt mótmæli hafa minnkað í mörgum borgum eru mótmælin í Portland enn með þeim umfangsmestu í landinu og hatrammar deilur hafa komið upp á milli mótmælenda og löggæsluliða.

Mótmælendur krefjast umbóta í löggæslu í landinu og að tekin verði ábyrgð á því óhóflega lögregluofbeldi sem svartir hafi verið beittir í Bandaríkjunum. Einnig krefjast mótmælendur réttlætis fyrir þau sem látist hafa af völdum lögregluofbeldis, þar á meðal George Floyd, Breonna Taylor og Elijah McClain.

Þó hefur fjöldi mismunandi mótmæla og kröfumála runnið saman í suðupott, sem inniheldur allt frá friðsælum kröfugöngum Black Lives Matter-hreyfingarinnar til smærri hópa ofbeldisfyllri mótmælenda.

Greint var frá því í síðustu viku að lögreglumenn í ómerktum bílum hefðu handtekið mótmælendur í borginni, að mestu leyti án tilefnis. Oregon Public Broadcasting greindi frá mótmælanda sem var handtekinn af löggæsluliðum á ómerktum bíl án útskýringar, en eftir að mótmælandinn óskaði eftir lögmanni var honum sleppt.

Þá hafa alríkislögreglumenn notað táragas og gúmmíkúlur gegn mótmælendum, en atferli löggæsluliða hefur valdið yfirvöldum í borginni, sem og í ríkinu, áhyggjum.

AFP

Yfirvöld í Oregon áhyggjufull

Ted Wheeler, borgarstjóri Portland, hefur sagt um þau hundruð alríkislögreglumanna sem sendir hafa verið á vettvang í borginni að „návist þeirra valdi í raun meira ofbeldi og meiri skemmdum“. Hann hefur þá lýst því yfir að borgaryfirvöld kæri sig ekki um nærveru þeirra, og vilji að þeir yfirgefi borgina.

Í viðtali við CNN um helgina sagði Wheeler að aðgerðir ríkisstjórnarinnar væru ekki aðeins ólöglegar, heldur stofnuðu þær lífum borgarbúa í hættu. 

Í síðustu viku sakaði Kate Brown, ríkisstjóri í Oregon, alríkislögreglumenn um „blygðunarlausa valdbeitingu,“ og að vera þeirra í borginni væri lítið annað en „pólitískt leikhús“ af hálfu ríkisstjórnar Donalds Trump.

„Öfgafullur múgur"

Bandarísk yfirvöld hafa verið harðorð í garð mótmælanna, og hefur forsetinn varið aðgerðir alríkislögreglunnar í Portland. Um helgina tísti hann að ríkisstjórnin væri „að reyna að hjálpa Portland, ekki skaða hana“. Þá hefðu borgaryfirvöld misst stjórn á mótmælendum, sem hann kallar anarkista og óreiðuvalda.

„Portland var algjörlega stjórnlaus, svo að [lögreglan] fór inn, og ég reikna með að margir séu núna í fangelsi,“ sagði forsetinn á blaðamannafundi í síðustu viku. „Við höfum ráðið niðurlögum þeirra, og ef þau byrja aftur munum við gera það aftur auðveldlega.“

Chad Wolf, framkvæmdastjóri innanríkisöryggismála, hefur þá kallað mótmælendur í Portland „öfgafullan múg“.

Verndun dómshússins yfirskin

Mótmælin í Portland hafa mestmegnis farið fram í nágrenni við Mark O. Hatfield-dómshúsið í miðborg Portland, en sumir mótmælenda hafa tekið upp á því að skjóta upp flugeldum, kasta flöskum og dósum að lögreglu og krota á veggi, meðal annars veggi dómshússins.

Alríkisverndarþjónusta Bandaríkjanna (Federal Protective Service) er ríkisstofnun sem hefur m.a. þann tilgang að vernda opinberar byggingar, t.d. dómshús. Þjónustan heyrir undir innanríkisöryggismáladeild ríkisins (Department of Homeland Security) og hefur þess vegna aðgang að alríkislögreglumönnum sem gegna öryggisstörfum í dómshúsum og öðrum opinberum byggingum.

AFP

Í viðtali við NPR sagði starfandi aðstoðarframkvæmdarstjóri innanríkisöryggismála, Ken Cuccinelli, að mótmælin í Portland hefðu verið alríkisverndarþjónustunni ofviða og þess vegna hefði hún þegið aðstoð tolla- og landamæraverndar Bandaríkjanna (United States Customs and Border Protection) og innflytjenda- og tollgæslunnar (Immigration and Customs Enforcement) til að ráða betur við mótmælendur.

Cuccinelli segir að þetta hafi verið gert í þágu verndunar dómshússins frá veggjakroti og skemmdarverkum, en gagnrýnendur hafa sakað stjórnvöld um að nýta sér smugu í reglunum til að beita alríkislögreglumönnum, sem sinna undir venjulegum kringumstæðum innflytjenda- og tollamálum og landamæravernd, gegn mótmælendum í Portland.

Þá útskýrir Cuccinelli að verksvið Alríkisverndarþjónustunnar nái til þeirra sem ógni öryggi opinbera bygginga eða séu grunuð um að valda tjóni á opinberum byggingum eða skaða opinbera starfsmenn.

Þá réttlæti grundvöllur umdæmisins það að alríkisverndarþjónustan, með aðstoð frá ICE og CBP, handtaki mótmælendur þegar grunur leiki á að þeir muni reyna að valda skemmdar- eða ofbeldisverkum.

Mark O. Hatfield-dómshúsið í Portland
Mark O. Hatfield-dómshúsið í Portland AFP

Kæra fyrir stjórnarskrárbrot

Dómsmálaráðherra Oregon-ríkis hefur lagt fram kæru á hendur alríkisstjórninni fyrir brot á fyrstu breytingu stjórnarskráarinnar, samkomuréttinum, og fjórðu og fimmtu breytingu stjórnarskráarinnar.

Kæran snýr að ólögmætri handtöku mótmælenda í Portland og skort á sanngjarnri málsmeðferð.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert