Mark Esper, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, greindi frá því í dag að hann hyggst ferðast til Kína til að ræða þær ógöngur sem samskipti ríkjanna eru komin í. Esper segist hafa verið í góðu sambandi við kínverskan kollega sinn og að hann vonist til að heimsækja Kína fyrir árslok.
Eitt markmið fyrirhugaðrar heimsóknar er að sögn Esper að koma á fót verklagi þegar kemur að samskiptum ríkjanna á „krísutímum“ og að skerpa á fyriráætlunum ríkjanna um að eiga viðskipti á alþjóðlegum mörkuðum.
Haft var eftir Esper að Kína „hefði engan rétt til þess að útiloka önnur ríki frá alþjóðlegu hafsvæði til að nota fyrir hersjávarflota sinn.“
„Við erum ekki að sækjast eftir árekstrum. Við erum ákveðin í því að eiga í uppbyggjandi og lausnamiðuðu sambandi við Kínverja,“ sagði Esper einnig.
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, tilkynnti fyrir viku síðan að bandarísk stjórnvöld teldu „flestar“ kröfur Kína um yfirráð yfir hafsvæðum í Suður-Kínahafi ólögmætar. Var það enn ein sneiðin sem Bandaríkjastjórn hefur sent kínverskum stjórnvöldum undanfarið.
Bandaríkin hafa þrýst á önnur ríki að banna kínverska fjarskiptafyrirtækið Huawei frá uppbyggingu 5G-netkerfið og þá hafa ráðamenn í Bandaríkjunum, og fleiri löndum, gagnrýnt kínversk stjórnvöld harðlega vegna öryggislaga sem tóku nýverið gildi og ná til sjálfstjórnarsvæðisins Hong Kong.
Þá er Donald Trump Bandaríkjaforseti sagður vera að íhuga víðtækt ferðabann gegn öllum félögum kínverska Kommunistaflokksins og fjölskyldum.