Donald Trump Bandaríkjaforseti segir malaríulyfið hydroxychloroquine hafa jákvæð áhrif á þá sem veikjast af kórónuveiru, þrátt fyrir að Anthony Fauci, sóttvarnalæknir Bandaríkjanna, mæli gegn notkun lyfsins. BBC greinir frá þessu.
Ummælin lét hann falla á blaðamannafundi í Hvíta húsinu, stuttu áður en hann fór til Odessa í Texas á fjáröflunarviðburð, sem Joe Biden gagnrýndi harðlega í ljósi alvarlegra aðstæðna vegna fjölda smita í ríkinu.
Elsti sonur Trump, Donald Trump yngri, var settur í sólarhringsbann á Twitter eftir að hafa mælt með notkun lyfsins. Í tilefni af því sagði Donald Trump í dag að lyfinu hafi einungis verið hafnað af sérfræðingum um leið og hann fór að mæla með því.
„Ég held að engu sé að tapa þegar kemur að lyfinu, fyrir utan það að það virðist ekki vera vinsælt pólitískt séð. Þegar ég mæli með einhverju, þá vill fólk segja „ekki nota þetta“.
Meðlimir almannavarnateymis bandarískra stjórnvalda eru þó á öðru máli. „Það er alvitað að allar faglegar rannsóknir hafa sýnt að hydroxychloroquine er ekki árangursríkt við COVID-19,“ sagði Anthony Fauci.