Víða gætir efnahagslegra áhrifa kórónuveirunnar, en mörg stærstu hagkerfi heims hafa dregist mikið saman síðan í febrúar.
Hagkerfi Bretlands hefur ekki jafnað sig jafn hratt og reiknað var með, en verg landsframleiðsla Bretlands reis um aðeins um 1,8% í maímánuði. Það kemur í kjölfar þess að landsframleiðslan féll um 6,9% í mars og um 20,4% í apríl. BBC greinir frá málinu.
Tölfræðistofnun Bretlands áætlar að hagkerfi landsins sé 24% minna en það var í febrúar.
Landsframleiðsla Bandaríkjanna dróst saman um 32,9% á öðrum ársfjórðungi á ársgrundvelli, en það er mesti samdráttur hagkerfisins síðan mælingar hófust árið 1947.
Atvinnuleysi hefur aukist mikið vestanhafs á síðustu vikum, en rúmlega 1,4 milljónir nýrra umsókna um atvinnuleysisbætur bárust í síðustu viku. Um 15 milljónir starfa hafa tapast síðan í febrúar, en talið er að um helmingur Bandaríkjamanna hafi þurft að þola skerðingar á innkomu sinni.
Verg landsframleiðsla Þjóðverja féll um 10,1% á milli byrjun apríl og lok júní, en það er mesti samdráttur hagkerfisins síðan mælingar hófust árið 1970.