Hundurinn Buddy, sem var fyrsti hundurinn sem greindist smitaður af kórónuveirunni í Bandaríkjunum, er dauður eftir að hafa glímt við mörg þau sömu einkenni COVID-19 og mannfólk finnur fyrir.
Buddy var þýskur fjárhundur og náði sjö ára aldri áður en sjúkdómurinn varð til þess að hann var aflífaður. Hann smitaðist í apríl, á sama tíma og eigandi hans, Robert Mahoney, var að ná sér af sjúkdómnum.
Upphaflega var Buddy með kvef og glímdi við öndunarerfiðleika en eftir því sem tíminn leið hrakaði heilsu hans mikið. Robert og eiginkona hans Allison ákváðu á endanum að láta aflífa Buddy eftir að hann hætti að geta labbað, byrjaði að æla blóðkekkjum og pissa blóði.
Robert og Allison voru lengi handviss um að Buddy væri smitaður af kórónuveirunni en áttu erfitt með að fá það staðfest. Þegar hann var á endanum greindur kom einnig í ljós að 10 mánaða gamall hvolpur fjölskyldunnar hafði myndað mótefni við veirunni.
Dýralæknar komust einnig að því að Buddy var að öllum líkindum með eitlakrabbamein sem vekur spurningar um hvort COVID-19 leggist þyngra á dýr sem eru með undirliggjandi sjúkdóma, líkt og á við um menn.
Eigendur Buddys segja að yfirvöld hafi lítinn áhuga haft á því að vita meira um ástand hans og hvernig sjúkdómurinn leggst á dýr. Á endanum var sú ákvörðun tekin af yfirvöldum að kryfja Buddy en þá höfðu eigendurnir þegar látið brenna hann.
Robert og Allison vilja að saga Buddys sé sögð: „Hann var góður strákur. Ég vildi að hann væri ennþá með okkur,“ sagði Allison.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur sagt að litlar líkur séu á því að gæludýr smiti eigendur en Shelley Rankin, dýralæknir í Háskólanum í Pennsylvaníu, segir að þörf sé á frekari rannsóknum.
Tólf hundar og tíu kettir hafa greinst smitaðir af kórónuveirunni í Bandaríkjunum.