Ísland vill vernda norðurslóðir fyrir aukinni spennu milli Bandaríkjanna og Kína. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við AFP-fréttaveituna.
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, heimsótti Danmörku í síðustu viku þar sem hann gagnrýndi Kínverja vegna ásóknar þeirra í norðurslóðir.
„Við höfum séð aukna spennu milli Bandaríkjanna og Kína,“ segir Katrín og bætir við að bæði lönd sýni norðurslóðum mikinn og aukinn áhuga.
Pompeo ítrekaði vestræna samvinnu á norðurslóðum í heimsókn sinni til Danmerkur; ellefu mánuðum eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti yfir áhuga á því að kaupa Grænland.
Katrín segist einblína á að hafa spennuna sem minnsta á norðurslóðum.
„Við ættum að einblína á að forðast hernað á norðurslóðum, það er mikilvægt fyrir íbúa svæðisins og umhverfið,“ segir Katrín.