Orkumálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur lagt til breytingar á skilgreiningunni á orðinu „sturtuhaus“ til að hægt verði auka vatnsþrýsting í sturtum eftir kvartanir Donald Trump Bandaríkjaforseta um að núverandi reglur geri honum erfitt fyrir að gera hár sitt „fullkomið“.
Samkvæmt lögum frá 1992 mega að hámarki 9,5 lítrar af vatni fara í gegnum sturtuhausinn á hverri mínútu. En gangi breytingarnar í gegn mun það takmark gilda um hvern stút á sturtuhausnum en ekki sturtuhausinn í heild sinni. BBC greinir frá.
Þá er það lagt til að hægt verði að setja fleiri en einn sturtuhaus a sömu festingu en þá væri hægt að komast fram hjá núgildandi takmörkun. Samtök neytenda og samtök umhverfissinna hafa gagnrýnt þessa tillögu og segja hana leyfa sóun á vatni og hún sé ónauðsynleg þar að auki.
„Sko sturtuhausar – þegar þú ferð í sturtu þá kemur vatnið ekki út. Þú ætlar að þvo á þér hendurnar, vatnið kemur ekki út. Þannig að hvað getur þú gert? Stendurðu bara þarna lengur eða ertu lengur í sturtunni? Af því að hárið mitt – ég veit ekki með þig – en það þarf að vera fullkomið. Fullkomið,“ sagði Trump í Hvíta húsinu í júlí sl.
Andrew deLaski, formaður hóps um orkusparnað heimilistækja Appliance Standards Awareness Project, sagði að breytingartillagan væri „kjánaleg“ og væri hluti af „ítrekuðum fölskum staðhæfingum Trump um að klósett, kranar og önnur heimilistæki hafi verið eyðilögð með alríkisstöðlum um skilvirkni.“
„Ef forsetinn þarf hjálp þá getum við bent honum á frábærar vefsíður sem hjálpa manni að finna góðan sturtuhaus sem gefur þétta bunu og góða sturtu,“ bætti hann við.