Fordæma samkomulagið og tala um svik

Tyrknesk og írönsk yfirvöld fordæma samkomulag Ísraela og Sameinuðu arabísku furstadæmanna (SAF) um að taka upp stjórnmálasamband. Forseti Tyrklands talar um svik og hræsni. Donald Trump Bandaríkjaforseti skýrði frá samkomulaginu í gær.

Í sameiginlegri yfirlýsingu Trump, Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, og Mohammed bin Zayed, krónprinsins í Abu Dhabi, sögðust þeir vona að „sögulegt samkomulag“ þeirra muni þoka friðarumleitunum í Mið-Austurlöndum áfram.

Samkomulagið inniheldur loforð um að Ísraelar muni láta af fyrirætlunum sínum um að innlima enn stærra svæði af Vesturbakkanum sem Ísraelar hernámu fyrir hálfri öld.

Í staðinn gerir samkomulagið ráð fyrir því að stofnað verði til opinberra diplómatískra tengsla milli ríkjanna, en þar til nú hefur Ísrael ekki átt í slíkum tengslum við arabaríki við Persaflóa. Sameinuðu arabísku furstadæmin eru aðeins þriðja arabíska ríkið til að stofna til opinberra samskipta við Ísrael, en þegar hafa verið gerðir friðarsamningar milli Ísraels og Egyptalands annars vegar og Jórdaníu hins vegar.

Í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneyti Tyrklands segir að með samkomulaginu sé verið að svíkja málstað Palestínu með því að þjóna þröngum hagsmunum SAF. Hvernig samkomulagið er kynnt sýni að SAF láti líta út eins og furstadæmin séu að fórna sér fyrir Palestínu. Fólkið sem býr á þessu svæði muni aldrei gleyma og hvað þá fyrirgefa þessari hræsni.

Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, er guðrækinn múslími og mikill bandamaður réttinda Palestínubúa. Hann hefur lengi gagnrýnt harðlega stefnu Ísraela á Vesturbakkanum. Í byrjun árs sakaði hann nokkur arabísk ríki um valdarán með því að styðja við umdeilda friðaráætlun Trump í Mið-Austurlöndum.

Í yfirlýsingu utanríkisráðuneytisins tyrkneska er lýst gríðarlegum áhyggjum af framkomu SAF og hvaða áhrif þetta muni hafa á framhald friðarviðræðna í Mið-Austurlöndum. 

Írönsk yfirvöld tóku í sama streng í morgun og segja samkomulagið vera dæmi um hernaðar heimsku sem muni aðeins auka stuðning við andspyrnu Írana. Palestínumenn og frjáls ríki heims muni aldrei fyrirgefa það að reynt sé að normalísera hegðun Ísraela á svæðinu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert