Þrettán ára órofinni sigurgöngu boxvalkyrjunnar og Björgvinjarbúans Ceciliu Brækhus lauk með hvelli í Tulsa í Oklahoma í Bandaríkjunum aðfaranótt sunnudags þegar hún mætti ofjarli sínum, Jessicu "CasKILLA" McCaskill frá Missouri sem lagði norsku hnefaleikakempuna að velli á úrskurði þriggja dómara, 95-95 frá einum, en 97-93 og 97-94 McCaskill í vil frá hinum tveimur.
„Hvílíkur skellur! Hvað var eiginlega að gerast núna? Þetta var reyndar ekki alveg óverðskuldað,“ sagði Thomas Hansvoll sem lýsti beinni útsendingu bardagans á Viaplay-stöðinni og átti varla orð yfir úrslitunum sem kannski er skiljanlegt.
McCaskill sló 499 högg í bardaganum á móti töluvert færri frá norska mótherjanum, eða 269, sem átti þó mun betri höggnýtingu en Bandaríkjamaðurinn og hæfðu 85 högg Brækhus andstæðinginn á móti 84 höggum "CasKILLA".
Allar götur síðan Cecilia Brækhus fór með sigur af hólmi í sínum fyrsta bardaga sem atvinnumanneskja í hnefaleikum 20. janúar 2007 hefur hún ekki tapað bardaga fyrr en nú um helgina og tapar nú fimm heimsmeistarabeltum á einu bretti, WBC (frá 2009), WBA (frá 2009), WBO (frá 2010), IBF (frá 2014) og IBO (frá 2016).
Mörgum norskum hnefaleikaálitsgjafanum og -áhugamanninum þykir þó önnur staðreynd jafnvel enn sárari en tapið sem slíkt. Hefði Cecilia Brækhus, sjálf „forsetafrúin“ eins og hún hefur gjarnan verið kölluð og kallar sig á Twitter, eða @1LadyCecilia, lagt Jessicu McCaskill að velli hefði hún orðið fyrsta hnefaleikamanneskja sögunnar, óháð kyni, til að verja heimsmeistaratitil 26 sinnum. Draumsýn sem hrundi sem hendi væri veifað í Tulsa í Oklahoma af öllum stöðum.
Gaf „forsetafrúin“ ótvírætt til kynna í viðtölum, þar á meðal við streymisveituna Dazn, sem sýndi bardagann, að með þessu væri ferli hennar lokið og hún hætt, nokkuð sem hún hefur reyndar sagt að minnsta kosti einu sinni áður, margt fyrir löngu.
„Hafi þetta verið minn síðasti bardagi gæti ég yfirgefið kvennahnefaleikana og sagt sem svo: „Ég var hluti af þessu. Ég átti hlut að máli við að lyfta hnefaleikum kvenna upp á þetta stig.“,“ sagði hún og bætti við: „Ég er búin að gera svo mikið. Ég sakna vina minna og fjölskyldu. Kvennahnefaleikarnir hafa þróast gríðarlega. Þeir plumma sig án mín,“ sagði hún og óskaði mótherja sínum farsældar.
„Ég óska henni til hamingju. Ég hef notað heilt líf í að safna beltunum, gættu vel að þeim. Það veit ég að hún gerir,“ sagði norska hnefaleikadrottningin við Dazn og beindi orðum sínum að Jessicu "CasKILLA" McCaskill sem hefur mátt berjast víðar en í hringnum um ævina en hún ólst upp við mikla örbirgð hjá frænku sinni í St. Louis sem missti að lokum húsnæði sitt og bjó McCaskill þá barnung um tíma í bakherbergi í kirkju í borginni ásamt bróður sínum.