„Donald Trump er rangur forseti fyrir land okkar,“ segir Michelle Obama, fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna. Hún hvetur kjósendur til þess að hafna stefnu hans um sundrungu.
Landsfundur Demókrataflokksins hófst í gær og gengu flestar ræður út á að sýna samstöðu meðal flokksmanna um tilnefningu Joe Biden sem forsetaframbjóðandi flokksins.
Michelle Obama flutti ávarp sitt á netinu enda fer landsfundurinn fram þar vegna kórónuveirunnar. Hún segir að í hvert skipti sem horft sé til Hvíta hússins hvað varðar leiðtoga og stöðugleika mæti fólki óreiða, sundrung og algjör skortur á samkennd.
Aldrei áður hefur fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna gagnrýnt sitjandi forseta með þessum hætti. Að lýsa honum sem hæfileikalausum til að sinna starfinu.
Á sama tíma og demókratar funduðu rafrænt gaf Trump lítið fyrir áhættuna sem fylgir samkomuhaldi á tímum kórónuveirunnar og hélt kosningakvöld í Wisconsin, ríkinu þar sem demókratar ætluðu að halda landsfund sinn.
Landsfundur demókrata stendur í fjóra daga og stýrir leikkonan Eva Longoria ráðstefnunni. Hún sagði í opnunarávarpi sínu að á fjögurra ára fresti fái þjóðin tækifæri til þess að staðfesta lýðræðið. Í ár snúist það um bjarga lýðræðinu. Tugir ræðumanna tóku í sama streng þar á meðal flokksbundnir repúblikanar sem ekki styðja frambjóðanda síns flokks, Donald Trump.
Ein þeira sem flutti ávarp er Kristine Urquiza en hún lýsti því fyrir hlustendum hvernig faðir hennar lést af völdum kórónuveirunnar þar sem hann trúði því að faraldurinn væri ekki alvarlegur. Hann hafi treyst Donald Trump og greiddi fyrir það með lífi sínu.
Kristin Urquiza, who lost her father to COVID-19: “My dad was a healthy 65-year-old. His only preexisting condition was trusting Donald Trump, and for that, he paid with his life.” https://t.co/mP0eiZqMUQ pic.twitter.com/iAgURrnfNs
— ABC News (@ABC) August 18, 2020
Michelle Obama sagði í ávarpi sínu að Biden hafi staðið sig frábærlega í embætti varaforseta og hún hafi kynnst honum vel þau átta ár sem hann starfaði við hlið eiginmanns hennar, Barack Obama. „Hann veit hvað þarf til að bjarga efnahagnum, að brjóta faraldurinn á bak aftur og leiða land okkar.“ Biden mun segja sannleikann og treysta vísindunum bætti hún við og vísaði þar til Trump sem ítrekað hefur verið gagnrýndur fyrir að hlusta ekki á ráð vísindamanna hvað varðar viðbrögð við COVID-19.