ESB viðurkennir ekki kjör Lúkasjenkós

Merkel tilkynnti um ákvörðun ESB í dag.
Merkel tilkynnti um ákvörðun ESB í dag. AFP

Evrópusambandið (ESB) viðurkennir ekki úrslit forsetakosninganna í Hvíta-Rússlandi. Þetta tilkynnti Angela Merkel, kanslari Þýskalands rétt í þessu, og bætti því við að kosningarnar umdeildu væru hvorki „frjálsar né sanngjarnar“. ESB mun brátt tilkynna um refsiaðgerðir sem beinast að nokkuð stórum hópi fólks sem er sagt standa að baki kosningasvindli og tilraunum til að þagga niður í mótmælendum með ofbeldisfullum hætti. 

„Fyrir okkur er enginn vafi á því að reglur voru brotnar í kosningunum,“ sagði Merkel fréttamönnum í Berlín eftir neyðarfjarfund með leiðtogum innan ESB.

„Kosningarnar voru hvorki frjálsar né sanngjarnar og það er þess vegna sem við viðurkennum ekki úrslit kosninganna. Við stöndum með friðsælum mótmælendum.“

Alexander Lúkasjenkó bar sigur úr býtum í kosningunum en hann er sagður hafa falsað niður­stöður kosninganna. Svetlana Tikhanavskaya, mótframbjóðandi hans, varð fyrir ofsóknum í aðdraganda og kjölfar kosninganna og þurfti að flýja land. Hún hefur boðist til þess að taka við stjórn landsins þar til aðrar kosningar verði haldnar.

Tugþúsundir hafa mótmælt kjöri Lúkasjenkós.
Tugþúsundir hafa mótmælt kjöri Lúkasjenkós. AFP

„Þangað til þið drepið mig verða eng­ar aðrar kosn­ing­ar“

Lúkasjenkó er þó ekki á þeim buxunum en hann til­kynnti um helg­ina að hann myndi ekki stíga til hliðar, né myndi hann leyfa öðrum kosn­ing­um að fara fram. Í verk­smiðju­heim­sókn­ á sunnudag sagði for­set­inn: „Við héld­um kosn­ing­arn­ar. Þangað til þið drepið mig verða eng­ar aðrar kosn­ing­ar.“

Tugþúsundir hafa mótmælt niðurstöðum kosninganna í Hvíta-Rússlandi. Lúka­sj­en­kó hef­ur ráðið ríkj­um í land­inu síðan 1994 eða í 26 ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka