Kamala Harris varð í gær fyrsta litaða konan sem flutti ávarp á landsfundi stórs stjórnmálaflokks í Bandaríkjunum. „Það er ekki til neitt bóluefni við rasisma,“ sagði Harris og bætti við: „Við þurfum að vinna þá vinnu.“ Harris er varaforsetaefni demókrata í ár.
Hún gagnrýndi sitjandi forseta, Donald Trump, í ræðu sinni á landsfundi Demókrataflokksins í gærkvöldi og sakaði hann um að hafa ekki staðið sig í hlutverki leiðtoga. Landsfundinum lýkur í kvöld með ávarpi forsetaefnis flokksins, Joes Bidens. Landsfundurinn fer fram rafrænt vegna kórónuveirufaraldursins en Bandaríkjamenn kjósa sér forseta 3. nóvember.
Harris gagnrýndi Trump í ræðu sinni í gærkvöldi og sagði að stöðug ringulreið í stjórn landsins fengi þjóðina til að líða eins og hún flyti stjórnlaust á sjónum. Vanhæfnin hræddi fólk og kaldlyndið vekti einmanakennd meðal þess. „Við getum gert betur og eigum svo miklu meira skilið.“