Fyrirhugað er að þrennir tónleikar fari fram á einum og sama deginum í Þýskalandi í því skyni að gera vísindafólki kleift að rannsaka áhættur stórra samkoma á tímum heimsfaraldurs.
BBC greinir frá því að um 4.000 sjálfboðaliðar á aldrinum 18-50 ára munu taka þátt í tilrauninni sem fer fram í dag í borginni Leipzig, en háskólinn í Halle sér um framkvæmdina.
Tónlistarmaðurinn Tim Bendzko kemur fram á öllum tónleikunum, en tilraunin hefur verið nefnd Restart-19, eða Enduræsing-19.
Framkvæmd tónleikanna verður mismunandi. Fyrstu tónleikarnir verða haldnir með sama sniði og eðlilegt hefði þótt fyrir faraldur kórónuveirunnar. Á öðrum tónleikunum verður meira lagt upp úr hreinlæti og persónulegum smitvörnum og á þriðju tónleikunum verða áhorfendur helmingi færri og 1,5 metra fjarlægð á milli áhorfenda tryggð.
Áhorfendur verða allir skimaðir fyrir kórónuveirunni og þeim síðan gefnar andlitsgrímur og staðsetningartæki.
Rannsakendur munu nota flúrljómandi efni til að kanna hvaða yfirborð tónleikagestir snerta helst og fylgjast með magni öreinda í andrúmsloftinu.