Börn eru líklegri til að verða fyrir skaða af því að missa úr skóla en ef þau smitast af kórónuveirunni. Þetta segir Chris Whitty, helsti ráðgjafi breskra stjórnvalda þegar kemur að heilbrigðismálum.
Whitty segir líkurnar á því að börn látist af völdum veirunnar vera gríðarlega litlar, en börn geti aftur á móti orðið fyrir langtímaskaða með því að missa úr skóla.
Þá segist Whitty telja að kórónuveirufaraldurinn verði áfram vandamál í Bretlandi í að minnsta kosti níu mánuði.
Samkvæmt BBC hafa yfirvöld á Englandi tilkynnt um að búist sé við því að allir hópar nemenda hefji skólahald að nýju í september. Skólahald er þegar hafið í Skotlandi.
„Það eru skýrar vísbendingar í Bretlandi og um heim allan sem benda til þess að börn eru mun ólíklegri til að veikjast alvarlega og þurfa innlögn á sjúkrahús ef þau smitast af Covid,“ segir Whitty, sem telur að mun fleiri börn væru líklegri til að verða fyrir skaða af því að fara ekki í skóla, en að fara og mögulega smitast af veirunni.
Whitty segir að að flest þeirra barna sem hafa látist af völdum veirunnar hafi haft „mjög alvarlega“ undirliggjandi sjúkdóma. Þá segir hann að allt bendi til þess að börn séu ólíklegri til að smita fullorðna af veirunni, en að fullorðnir smiti aðra fullorðna.