Svæðið sem skógareldarnir hafa geisað í Kaliforníu er næstum 400 þúsund hektarar að stærð, sem jafngildir um milljón ekra.
Þetta sagði upplýsingafulltrúi CalFire, stofnunar sem tekst á við skógarelda í ríkinu.
Slökkviliðsmenn hafa barist við skógareldana í dag en mikið hefur verið um eldingar á svæðinu. Samanlagt eru slökkviliðsmennirnir 13.700 sem berjast við í kringum tuttugu mismunandi elda. Þar af hafa um 2.600 slökkviliðsmenn tekist á við tvo stærstu skógareldana sem eru kallaðir SCU Lightening Complex og LNU Lightening Complex. Þeir hafa farið yfir tæplega 680 þúsund ekrur og eyðilagt yfir 850 byggingar. Þeir eru næststærstu og þriðju stærstu skógareldarnir í sögu Kaliforníu.
„Ef þú trúir ekki á lofslagsbreytingar, komdu þá til Kaliforníu,“ tísti ríkisstjórinn Gavin Newsom í dag og lét fylgja með ljósmynd af eyðileggingunni.
„Þetta er frá því í dag,“ tísti hann, „ og þetta er bara lítill hluti af þeim næstum 600 eldum sem við höfum glímt við í þessari viku.“
If you don’t believe in climate change, come to California.
— Gavin Newsom (@GavinNewsom) August 23, 2020
This is from today. And is just a small part of the nearly 600 fires we are battling this week. pic.twitter.com/iv4stV3Aax
Bandaríska veðurstofan spáir því að eldingaveður gæti valdið enn fleiri skógareldum.
Tugir þúsunda hafa þurft að yfirgefa heimili sín. Fimm eru sagðir hafa látist af völdum skógareldanna en fjögur lík fundust á fimmtudag, þar á meðal þrjú í húsi sem brann í Napa-sýslu.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lýst skógareldunum sem miklum hamförum og hefur hann veitt aukið fjármagn í baráttuna gegn þeim, að því er BBC greindi frá.