Systir Trump kallar hann grimman lygara án gilda

Donald Trump er grimmur, hann er lygari og hann skortir …
Donald Trump er grimmur, hann er lygari og hann skortir gildi að sögn systur hans. AFP

Eldri systir Donald Trump Bandaríkjaforseta lýsti bróður sínum sem grimmum og lygara. Hún sagði einnig að hann skorti gildi og því væri ekki hægt að treysta honum. Þetta kom fram í leynilegum upptökum sem Mary L. Trump, frænka systkinanna, tók upp á árunum 2018 og 2019 og voru gerðar opinberar í gær.

Maryanne Trump Barry, fyrrverandi alríkisdómari, virtist einnig vera hneyksluð á stefnu bróður síns í málum innflytjenda en hún gerði það að verkum að mörg börn voru skilin frá foreldrum sínum og sett í varðhaldsvist á meðan réttarhöld fóru fram – margir segja að börnin hafi einfaldlega verið geymd í búrum.

„Það eina sem hann hugsar um er að höfða til grunnstuðningsmanna. Hann hefur engin grunngildi. Engin,“ mátti heyra Maryanne Trump segja á upptökunum sem The Washington Post komst yfir. „Helvítis tístin hans og lygarnar. Guð minn góður,“ bætti hún við.

Upptökurnar gerðar fyrir útgáfu bókar

Mary L. Trump gaf út bók í síðasta mánuði sem hún kallaði Of mikið og aldrei nóg: Hvernig fjölskylda mín skapaði hættulegasta mann í heimi. Í henni gagnrýndi hún frænda sinn harðlega og voru upptökurnar leynilegu gerðar því hún vildi hafa sönnunargögn ef henni yrði stefnt.

Lögmaður Trump segir hana hafa áttað sig á því að vitni úr Trump-fjölskyldunni hefðu logið í vitnaleiðslum og hún hefði búist við lögsóknum. Yngri bróðir forsetans, Robert Trump, sem lést í síðustu viku, reyndi að fá lögbann á útgáfu bókarinnar en fékk ekki.

Tæplega milljón eintök af bókinni voru seld daginn sem hún kom út en sama dag kallaði Hvíta húsið hana „bók ósanninda“.

Borgaði fyrir að láta taka inntökuprófin fyrir sig

Upptökurnar varpa einnig ljósi á það hvaðan þær sögusagnir komu að Trump hafi greitt einhverjum til að taka inntökupróf í háskóla (SAT-próf) fyrir sig.

„Hann komst inn í Háskólann í Pennsylvaníu af því hann fékk einhvern til að taka prófin fyrir sig,“ má heyra systur hans segja og bæta því við að hún muni enn þá nafnið á þeim sem tók prófin fyrir bróður hennar.

„Það er alltaf eitthvað nýtt á hverjum degi“

Í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu í kjölfar þess að The Washington Post birti umfjöllun sína og upptökurnar sagði:

„Það er alltaf eitthvað nýtt á hverjum degi, hverjum er ekki sama? Ég sakna bróður míns og ég mun halda áfram að vinna af krafti fyrir bandaríska þegna. Það eru ekki allir sammála en niðurstöðurnar eru augljósar. Landið okkar mun fljótlega verða öflugra en nokkurn tímann fyrr.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert