Systir Trump kallar hann grimman lygara án gilda

Donald Trump er grimmur, hann er lygari og hann skortir …
Donald Trump er grimmur, hann er lygari og hann skortir gildi að sögn systur hans. AFP

Eldri syst­ir Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seta lýsti bróður sín­um sem grimm­um og lyg­ara. Hún sagði einnig að hann skorti gildi og því væri ekki hægt að treysta hon­um. Þetta kom fram í leyni­leg­um upp­tök­um sem Mary L. Trump, frænka systkin­anna, tók upp á ár­un­um 2018 og 2019 og voru gerðar op­in­ber­ar í gær.

Mary­anne Trump Barry, fyrr­ver­andi al­rík­is­dóm­ari, virt­ist einnig vera hneyksluð á stefnu bróður síns í mál­um inn­flytj­enda en hún gerði það að verk­um að mörg börn voru skil­in frá for­eldr­um sín­um og sett í varðhaldsvist á meðan rétt­ar­höld fóru fram – marg­ir segja að börn­in hafi ein­fald­lega verið geymd í búr­um.

„Það eina sem hann hugs­ar um er að höfða til grunnstuðnings­manna. Hann hef­ur eng­in grunn­gildi. Eng­in,“ mátti heyra Mary­anne Trump segja á upp­tök­un­um sem The Washingt­on Post komst yfir. „Hel­vít­is tíst­in hans og lyg­arn­ar. Guð minn góður,“ bætti hún við.

Upp­tök­urn­ar gerðar fyr­ir út­gáfu bók­ar

Mary L. Trump gaf út bók í síðasta mánuði sem hún kallaði Of mikið og aldrei nóg: Hvernig fjöl­skylda mín skapaði hættu­leg­asta mann í heimi. Í henni gagn­rýndi hún frænda sinn harðlega og voru upp­tök­urn­ar leyni­legu gerðar því hún vildi hafa sönn­un­ar­gögn ef henni yrði stefnt.

Lögmaður Trump seg­ir hana hafa áttað sig á því að vitni úr Trump-fjöl­skyld­unni hefðu logið í vitna­leiðslum og hún hefði bú­ist við lög­sókn­um. Yngri bróðir for­set­ans, Robert Trump, sem lést í síðustu viku, reyndi að fá lög­bann á út­gáfu bók­ar­inn­ar en fékk ekki.

Tæp­lega millj­ón ein­tök af bók­inni voru seld dag­inn sem hún kom út en sama dag kallaði Hvíta húsið hana „bók ósann­inda“.

Borgaði fyr­ir að láta taka inn­töku­próf­in fyr­ir sig

Upp­tök­urn­ar varpa einnig ljósi á það hvaðan þær sögu­sagn­ir komu að Trump hafi greitt ein­hverj­um til að taka inn­töku­próf í há­skóla (SAT-próf) fyr­ir sig.

„Hann komst inn í Há­skól­ann í Penn­sylvan­íu af því hann fékk ein­hvern til að taka próf­in fyr­ir sig,“ má heyra syst­ur hans segja og bæta því við að hún muni enn þá nafnið á þeim sem tók próf­in fyr­ir bróður henn­ar.

„Það er alltaf eitt­hvað nýtt á hverj­um degi“

Í yf­ir­lýs­ingu frá Hvíta hús­inu í kjöl­far þess að The Washingt­on Post birti um­fjöll­un sína og upp­tök­urn­ar sagði:

„Það er alltaf eitt­hvað nýtt á hverj­um degi, hverj­um er ekki sama? Ég sakna bróður míns og ég mun halda áfram að vinna af krafti fyr­ir banda­ríska þegna. Það eru ekki all­ir sam­mála en niður­stöðurn­ar eru aug­ljós­ar. Landið okk­ar mun fljót­lega verða öfl­ugra en nokk­urn tím­ann fyrr.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert