Efast um aðra smitbylgju í Svíþjóð

Anders Tegnell, sóttvarnalæknir Svíþjóðar, fór yfir stöðuna í sjónvarpi í …
Anders Tegnell, sóttvarnalæknir Svíþjóðar, fór yfir stöðuna í sjónvarpi í gærkvöldi. AFP

Anders Tegnell, sóttvarnalæknir Svíþjóðar, efast um að önnur smitbylgja komi til Svíþjóðar, þar fækki nýjum staðfestum smitum og dauðsföllum. Þar vísar hann til kórónuveirufaraldursins í vetur og vor en Svíþjóð skar sig úr varðandi fjölda smita og dauðsfalla meðal ríkja á Norðurlöndunum. Alls hafa yfir 86 þúsund greinst með kórónuveiruna í Svíþjóð og af þeim eru 5.810 látnir.

Smitrakning er eitt helsta tækið í baráttunni við veiruna

Í viðtali við SVT Agenda í gær segir Tegnell að smitrakningin sé eitt af því sem skipti mestu í baráttunni við veiruna. Hann segir að hættan sé ekki að baki en líkt og hann hefur áður sagt verður fólk að vera viðbúið því að lifa með kórónuveirunni í lengri tíma. 

Ekki eigi að setja allt traust sitt á bóluefni enda sé það aldrei hin fullkomna lausn. Aðeins hafi tekist að útrýma bólusótt með bólusetningu, ekki öðrum farsóttum. 

Svo virðist sem kórónuveiran dreifist í klösum og Tegnell segir að um leið og veiran finni sér leið, til að mynda inn á vinnustað, þá geti hún dreifst hratt og víða þar. Hann telur að smitrakningin sé það sem gefi besta raun þegar stöðva á hópsýkingu á fyrri stigum. Þetta hafi gengið vel og gefið góða raun í Svíþjóð. 

Lena Hallengren, heilbrigðisráðherra Svíþjóðar, og Anders Tegnell sóttvarnalæknir.
Lena Hallengren, heilbrigðisráðherra Svíþjóðar, og Anders Tegnell sóttvarnalæknir. AFP

Talsverð fjölgun varð á nýjum smitum í byrjun ágúst í Svíþjóð en Tegnell segir að þau hafi einkum tengst fólki á þrítugs- og fertugsaldri sem ekki fylgdi sóttvarnaleiðbeiningum í þaula.

Hann segir að auðvitað sé best að fækka nýjum smitum í nánast ekki neitt en hann hafi ekki þungar áhyggjur af þessu þar sem þessi nýju smit hafi ekki náð til eldra fólks. Jafnframt hafi þau ekki aukið álag á heilbrigðisþjónustuna. „Það sem er mikilvægast er að þeim hefur ekki haldið áfram að fjölga,“ segir Tegnell. 

Fremur fá smit hafa verið staðfest í Stokkhólmi að undanförnu en höfuðborgin og nágrenni hennar voru meðal þeirra staða sem urðu verst úti vegna COVID-19 í vor. Aftur á móti hefur nýjum smitað fjölgað í Skåne sem er vinsæll áfangastaður ferðafólks. Sama á við um Gotland sem einnig er vinsæll ferðamannastaður. 

Heilbrigðisyfirvöld í Skåne segja að nýjum smitum hafi fjölgað í öllum aldurshópum en einkum meðal fólks á aldrinum 20-49 ára. Fremur fáir eldri borgarar hafi veikst. Í flestum tilvikum er um innanlandssmit að ræða en einnig hafa nokkrir smitast á ferðalögum um Balkanskagann og Suðaustur-Evrópu.

Frétt SVT

Frétt DR

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert