Þýska ríkisstjórnin telur mjög líklegt að eitrað hafi verið fyrir rússneska stjórnarandstæðingnum Alexei Navalní. Hann liggur á sjúkrahúsi í Berlín eftir að hafa verið fluttur þangað með sjúkraflugi frá Síberíu á laugardag.
Steffen Seibert, talsmaður Angelu Merkel, lét þessi ummæli falla á fundi með blaðamönnunum í dag. Navalní veiktist um borð í flugvél á leið frá Síberíu til Moskvu í síðustu viku og telja ættingjar hans og vinir að eitrað hafi verið fyrir honum. Læknar í Rússlandi segja aftur á móti að um efnaskiptasjúkdóm sé að ræða.
Læknar sem önnuðust Navalní á sjúkrahúsinu í Omsk segja að stjórnvöld hafi reynt að hafa áhrif á hvernig sjúklingnum var sinnt og sjúkdómsgreindur. Yfirmaður sjúkrahússins, Alexander Murakhovskí, segir að ekkert slíkt hafi verið um að ræða og ef svo hefði verið hefðu læknar aldrei tekið það í mál. Blaðamenn og bandamenn Navalnís segja að lögregla hafi verið um allt sjúkrahúsið. Óeinkennisklæddir lögreglumenn hafi síðan haldið til á skrifstofu yfirlæknisins. Yfirlæknirinn segist ekki geta upplýst hverjir það voru.
Margir hafi komið á skrifstofu hans enda Navalní opinber persóna. Þeir hafi í raun ekki lagt neitt til málanna annað en að spyrja hvað væri í gangi.
Samkvæmt upplýsingum frá Charite-sjúkrahúsinu í Berlín er líðan stjórnarandstæðingsins stöðug.
Á laugardag greindu heilbrigðisyfirvöld í Omsk frá því að bæði koffín og áfengi hefðu fundist í þvagi Navalnís en engin eiturefni.