Héldu að kórónuveiran væri falsfrétt

Brian Lee Hitchens og eiginkona hans, Erin.
Brian Lee Hitchens og eiginkona hans, Erin. Af Facebook

Kona sem trúði falsfréttum um að kórónuveiran væri blekking, líkt og eiginmaður hennar,  er látin úr COVID-19 eftir nokkurra mánaða baráttu við sjúkdóminn og afleiðingar hans.

Brian Lee Hitchens, sem er leigubílstjóri í Flórída, og eiginkona hans, Erin, höfðu lesið um það á netinu að kórónuveiran væri uppskálduð, tengdist 5G eða væri venjuleg flensa. Þau fylgdu því ekki leiðbeiningum heilbrigðisyfirvalda og leituðu ekki læknisaðstoðar þegar þau veiktust í í byrjun maí.

Brian náði sér en Erin veiktist alvarlega og lést fyrr í mánuðinum af völdum hjartveiki tengdri veirunni. Hún var 46 ára gömul. Þetta kemur fram í frétt á vef BBC í dag en Brian ræddi einnig við fréttamann BBC í tengslum við grein varðandi afleiðingar COVID-19.

Erin var með undirliggjandi sjúkdóma, astma og svefnvandamál. Eiginmaður sagði í samtali við BBC á sínum tíma að þau hefðu ekki fylgt sóttvarnaleiðbeiningum í upphafi faraldursins þar sem þau trúðu falsfréttum á netinu. Brian hélt því áfram að mæta til vinnu sem leigubílstjóri og virti allar sóttvarnareglur að vettugi, svo sem að nota grímu eða virða fjarlægðarmörk.

Þau voru bæði greind með COVID-19 í maí og segir Brian að hann vildi óska þess að þau hefðu hlustað á viðvörunarorð heilbrigðisyfirvalda strax í upphafi. „Þetta er raunveruleg veira sem hefur bein áhrif á fólk. Ég get ekki breytt því sem orðið er,“ segir Brian í samtali við BBC. Hún kvelst ekki lengur segir Brian, „ég sakna hennar en ég veit að hún er á betri stað“.

Brian segir að þau hafi ekki haft neina trú á að COVID-19 væri til og ef veiran væri til þá væri hún svipuð og venjuleg flensa eða eitthvað sem tengdist 5G-tækninni. Þau komust í kynni við þessar kenningar í gegnum Facebook. „Við héldum að stjórnvöld væru að nota þetta til að afvegaleiða okkur,“ segir Brian. „Eða þetta væri eitthvað tengt 5G.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert