Tilmælum breytt á meðan Fauci var í aðgerð

„Ég hef áhyggjur af túlkun þessara tilmæla en þau gætu …
„Ég hef áhyggjur af túlkun þessara tilmæla en þau gætu gefið til kynna að dreifing einkennalausra á veirunni sé ekki áhyggjuefni. Hún er áhyggjuefni,“ sagði Anthony Fauci í samtali við CNN. AFP

Sótt­varna­stofn­un Banda­ríkj­anna (CDC) hefur nú tekið til baka tilmæli sín til einkennalausra sem hafa verið útsettir fyrir kórónuveirusmitum um að fara í sýnatöku vegna mögulegs smits. Breytingin var gerð án þess að hún væri útskýrð eða tilkynnt sérstaklega.

Anthony Fauci, helsti sóttvarnasérfræðingur Bandaríkjanna, sagði í samtali við CNN í dag að hann hafi verið í skurðaðgerð þegar tilmælunum var breytt og hann hafi ekki verið hafður með í ráðum við breytingu þeirra. Þá lýsti Fauci yfir áhyggjum af breytingunum.

Bandarískir miðlar greina frá því að ríkisstjórn Bandaríkjanna hafi komið að breytingunum. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ítrekað sagt að draga eigi úr sýnatöku í Bandaríkjunum og kennt sýnatökum um það að Bandaríkin líti illa út í baráttu sinni við veiruna. 

Frá sýnatöku í Las Vegas í Bandaríkjunum.
Frá sýnatöku í Las Vegas í Bandaríkjunum. AFP

Þurfa „ekki endilega“ að fara í sýnatöku

Fréttastofa AFP greinir þó frá því að það sé ekki satt. Þó Bandaríkin taki fjölda sýna sé það vegna þess að faraldurinn sé útbreiddari þar heldur en í nokkru öðru landi í heiminum. Þar hafa tæplega 6 milljónir smita greinst og tæplega 180.000 látist vegna COVID-19. 

Í tilmælum CDC sagði áður: „Mælt er með sýnatöku fyrir alla nána aðila þeirra sem greinast sýktir af SARS-CoV-2.“

Í tilmælunum segir nú: „Ef þú hefur átt í nánum samskiptum við manneskju sem sýkst hefur af COVID-19 í að minnsta kosti 15 mínútur en sýnir engin einkenni þarft þú ekki endilega að fara í sýnatöku nema þú sért í áhættuhópi eða heilbrigðisstarfsmenn mæli sérstaklega með því við þig.“

Dreifing einkennalausra áhyggjuefni

Fauci sagði í samtali við CNN að breytingarnar yllu honum áhyggjum. 

„Ég hef áhyggjur af túlkun þessara tilmæla en þau gætu gefið til kynna að dreifing einkennalausra á veirunni sé ekki áhyggjuefni. Hún er áhyggjuefni,“ sagði Fauci við CNN. 

CDC hafði áður lagt áherslu á að 40-50% þeirra sem smitist af veirunni sýni engin einkenni COVID-19. Því væri mikilvægt að fólk mætti í sýnatöku svo mögulegt væri að stöðva útbreiðslu veirunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka