Ísbjörn varð manni að bana á tjaldsvæði á Svalbarða í nótt samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum. Þetta er sjötta skiptið á hálfri öld sem ísbjörn verður manni að bana á norska eyjaklasanum.
Atvikið átti sér stað á tjaldsvæði skammt frá Longyearbyen og segir í tilkynningu frá yfirvöldum á Svalbarða að ísbjörninn hafi sært manninn alvarlega og hann látist skömmu síðar. Gestir á tjaldsvæðinu skutu að ísbirninum og fannst hann síðar dauður á bílastæði við flugvöllinn.
Mælt er með því að vera vopnaður á Svalbarða ef fólk er á ferðinni utan þéttbýlis enda hefur hlýnun jarðar neytt þá til þess að leita ætist nær mannabyggð en áður.
Samkvæmt tölum frá árinu 2015 voru um eitt þúsund ísbirnir á Svalbarða en þeir hafa verið alfriðaðir á Svalbarða síðan 1973.
Ein alvarlegasta árás ísbjarnar sem sögur fara af á Svalbarða síðustu ár er þegar ísbjörn réðst á 14 manna hóp Breta í skólaferðalagi árið 2011. Sautján ára breskur námsmaður lést og fjórir særðust áður en ísbjörninn var felldur.