Skýrsla sem bresk stjórnvöld létu vinna sýnir fram á að í versta falli gætu 85.000 manns fallið frá í vetur í Bretlandi vegna COVID-19. Í skýrslunni kemur einnig fram að þrátt fyrir að frekari takmarkanir verði mögulega kynntar sé líklegt að skólar verði áfram opnir. Skýrslan var ekki kynnt opinberlega heldur var henni lekið til fjölmiðla.
Í skýrslunni er sett fram „sviðsmynd, ekki spá“ og gögnin í henni eru háð „talsverðri óvissu“. Gagnrýni hefur komið fram á skýrsluna og hafa einhverjir sagt hana úrelta.
Skýrslan var skrifuð af vísindalega ráðgjafarhópnum Sage sem miðar að því að hjálpa breska heilbrigðiskerfinu og sveitarfélögum að skipuleggja þjónustu, svo sem greftrunarþjónustu, fyrir vetrarmánuðina sem fram undan eru.
Í skýrslunni er einnig sagt að fyrir nóvember verði frekari takmörkunum komið á í bresku samfélagi og búast megi við því að takmarkanir verði í gildi þar til í mars 2021.
Í skýrslunni er gerð tilraun til að reikna út hversu mörg dauðsföll verði frá júlí 2020 til mars 2021. Miðað við útreikningana verða dauðsföllin mun fleiri en í venjulegu árferði. 81.000 dauðsföllum er spáð í Englandi og Wales vegna COVID-19 á tímabilinu. Í Skotlandi gætu 2.600 dáið vegna COVID-19 og 1.900 á Norður-Írlandi, samkvæmt skýrslunni.