Þrjú börn hafa verið fjarlægð af heimili sínu í Svíþjóð eftir að foreldrar þeirra lokuðu þau inni í fjóra mánuði af ótta við kórónuveirufaraldurinn, að sögn lögfræðings barnanna.
Börnunum, sem eru á aldrinum 10 til 17 ára, var óheimilt að yfirgefa herbergi sín í Jönköping í suðurhluta Svíþjóðar frá því í mars og fram í júlí.
Börnin máttu ekki einu sinni hitta hvert annað en að sögn Mikaels Svegfors, lögfræðings barnanna, dvöldu þau hvert í sínu herbergi og borðuðu meðal annars allar máltíðir þar.
Auk þess var búið að negla fyrir útidyrnar þannig að ómögulegt var að komast út.
Foreldrar barnanna neita því að börnunum hafi verið haldið inni gegn þeirra vilja og hyggjast áfrýja niðurstöðunni.
Ólíkt mörgum öðrum Evrópuríkjum var ekki strangt útgöngubann í gildi í Svíþjóð í vor og allir grunnskólar landsins opnir.
Svegfors sagði í samtali við AFP-fréttastofuna að foreldrarnir kæmu frá „öðrum heimshluta“, töluðu ekki reiprennandi sænsku og skildu ekki alveg þarlendar fréttir.
„Þau fylgdust með fréttum frá sínu heimalandi þar sem aðgerðir voru mun harðari,“ sagði lögfræðingurinn.