Stefna á að tvöfalda kjarnaoddaforðann

Í skýrslunni segir að her Kína standi þegar jafnfætis eða …
Í skýrslunni segir að her Kína standi þegar jafnfætis eða framar keppinautum sínum handan Kyrrahafsins á nokkrum sviðum. AFP

Kínverski herinn býr sig undir að tvöfalda kjarnaoddaforða sinn innan áratugar, með það að markmiði að geta skotið þeim jafnt frá lofti og láði sem legi. Frá þessu greinir bandaríska varnarmálaráðuneytið í skýrslu sem opinberuð var í dag.

Samhliða því að sækjast eftir að gera tæknilegt forskot bandaríska hersins að engu, horfir kínverski herinn einnig til þess að samræma ólíkar herdeildir sínar til að hamla eða vinna bug á tilraunum þess bandaríska til að skipta sér af gangi mála við Taívansund.

Verði á við bandaríska herinn um miðja öldina

Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur aldrei áður gert opinberar áætlanir um fjölda …
Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur aldrei áður gert opinberar áætlanir um fjölda kjarnaodda í fórum Kínverja. AFP

Í skýrslunni segir að her Kína standi þegar jafnfætis eða framar keppinautum sínum handan Kyrrahafsins á nokkrum sviðum, þar á meðal í skipasmíði, eldflaugaskotum á landi og loftvarnakerfum.

Aldrei áður hefur áætlun Bandaríkjanna á fjölda kjarnaodda Kínverja verið gerð opinber fyrr en nú, en í skýrslunni segir að talið sé að þeir lumi á rúmlega 200 slíkum. Sjálfstæðir sérfræðingar hafa hingað til talið fjöldann vera um eða yfir 300.

Eins og áður sagði er í skýrslunni búist við að þessi tala tvöfaldist innan næstu tíu ára.

„Það er líklegt að Peking muni sækjast eftir því að þróa her sem muni um miðja öldina standa jafnfætis, eða í sumum tilfellum skara fram úr, þeim bandaríska, eða her hvers þess stórveldis sem Kína lítur á sem ógn,“ segir í skýrslunni.

Breytt markmið í Peking

Ef Kína nær þessu markmiði, og Bandaríkjunum mistekst að mæta því, „mun það hafa alvarlegar afleiðingar fyrir þjóðarhagsmuni Bandaríkjanna og það öryggi sem felst í viðurkenndri alþjóðlegri réttarskipan“.

Fréttaveitan AFP hefur eftir embættismanni innan varnarmálaráðuneytisins, að þótt Kína standi enn mun aftar Bandaríkjunum hvað varðar fjölda kjarnaodda, sýni fjölgunaráformin að stjórnvöld í Peking hyggist færa sig frá þeirri nálgun sinni að hafa lágmarksfjölda kjarnaodda til að fyrirbyggja árásir gagnvart sér, og yfir í algjöra samkeppni við önnur stórveldi á þessu sviði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert