„Dauðinn á að vera lýðræðislegur“

Alain Cocq á heimili sínu í Dijon í austurhluta Frakklands.
Alain Cocq á heimili sínu í Dijon í austurhluta Frakklands. AFP

Alain Cocq, 57 ára franskur karlmaður með ólæknandi sjúkdóm, ákvað í gærkvöldi að hætta notkun allra lyfja og hætta að neyta matar og drykkjar í því skyni að deyja innan nokkurra daga. Cocq hafði samband við Emmanuel Macron Frakklandsforseta fyrr í sumar og fór þess á leit að forsetinn endurskoðaði lög sem banna dánaraðstoð í Frakklandi.

Cocq býst við því að eiga nokkra daga eftir ólifaða. Hann segist ætla að streyma frá síðustu dögum ævinnar á Facebook. „Ég veit að ég mun finna fyrir meiri sársauka en nokkurn tímann áður, í um fimm til sjö daga. Ég er ekki að gera þetta fyrir neina gægjuþörf. Ég vil upplýsa fólk um eitthvað sem allir þekkja en enginn vill tala um: sársauka. Ég kýs að sýna sársauka minn. Grundvallarregla lýðræðisins er að fólk á að hafa val. Dauðinn á að vera lýðræðislegur,“ segir Cocq. 

AFP

Cocq skrifaði Frakklandsforseta bréf 20. júlí síðastliðinn þar sem hann bað forsetann að leyfa sér að „deyja með reisn“ og lýsti óbærilegum sársauka sínum. Hann hvatti Macron til að endurskoða löggjöf sem bannar dánaraðstoð. Í svari sínu til Cocqs sagði Macron að saga Cocqs hefði hreyft við sér. Hann gat þó ekki orðið við beiðni Cocqs um að lögleiða dánaraðstoð. 

Cocq segist hafa búist við því svari sem hann fékk frá Macron, en þyki þó vænt um samúðina sem forsetinn sýndi honum.  

„Í dag er ég fullur þakklætis og búinn að fá nóg. Ég tók þá ákvörðun að binda enda á líf mitt 26. júní og bað þá aðstoðarmann minn að slá inn bréfið sem ég sendi til forsetans. Þetta var hræðileg ákvörðun að taka, en ég get sagt þér það að mér hafði ekki liðið svona vel í langan tíma,“ segir Cocq.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert