Þýska beitiskipið Karlsruhe fundið

Skyndilega seig fallbyssuturn út úr niðamyrkrinu á 490 metra dýpi …
Skyndilega seig fallbyssuturn út úr niðamyrkrinu á 490 metra dýpi úti fyrir Kristiansand. Áhöfn Olympic Taurus hafði fundið síðasta stóra þýska herskipið við Noregsstrendur sem fram til þessa var ekki vitað með vissu hvar lægi. Skjáskot/Könnunarkafbátur Olympic Taurus

Áhöfn norska borpallaþjónustuskipsins Olympic Taurus gleymir seint þriðjudeginum 30. júní í sumar þegar hún sinnti verkefni fyrir Statnett, ríkisfyrirtæki sem annast þróun og eftirlit flutningsnets raforku í og við Noreg, þar á meðal neðansjávarstrengja til annarra landa.

Að þessu sinni var skipið að kanna ástand raforkustrengsins til Danmerkur og var statt um ellefu sjómílur suðaustur af Kristiansand. Meðal starfsmanna Statnett um borð var verkfræðingurinn Ole Petter Hobberstad sem einnig er glúrinn áhugasagnfræðingur og leiddi sá áhugi til sögulegs fundar þennan þriðjudag í júní.

Aðdragandinn er þó nokkur. Hobberstad hefur oftsinnis verið um borð í Olympic Taurus ásamt samstarfsfólki frá Statnett við eftirlit með sæstrengjum. Skipið er búið öflugum hljóðbylgjusendi, eða sónar, til að greina landslagið á hafsbotni, strengina og annað sem til skoðunar er hverju sinni.

Áttu lausa stund

Síðustu þrjú ár, eða frá því í apríl 2017, hafði stór og mikill ílangur skuggi á 490 metra dýpi, aðeins 15 metra frá Danmerkurstrengnum, vakið athygli verkfræðingsins og forvitni. Tími var þó jafnan af skornum skammti til að dufla við sagnfræðirannsóknir samhliða verkefnum raforkufyrirtækisins en það breyttist einmitt síðdegis 30. júní.

Séð framan á voldugt stefni Karlsruhe, hakakross þriðja ríkisins fyrir …
Séð framan á voldugt stefni Karlsruhe, hakakross þriðja ríkisins fyrir miðri mynd. Skjáskot/Könnunarkafbátur Olympic Taurus

Vegna veðurs þennan dag var aukaverkefni, sem skipið átti að fara í, aflýst og myndaðist því nokkurra klukkustunda svigrúm áður en halda skyldi til hafnar. Hobberstad notaði tækifærið og sendi fjarstýrðan könnunarkafbát niður í djúpið, að skugganum sem haldið hafði forvitni hans vakandi um árabil.

Á 490 metra dýpi birtist greinileg skipshlið í ljósgeisla kafbátsins, svo löng að undrum sætir. Næst birtist hlutur sem óneitanlega minnir á fallbyssuturn og skömmu síðar annar slíkur. Að lokum hverfur allur vafi sem dögg fyrir sólu í myrku djúpinu þegar ljóskeilan dregur fram heljarmikinn hakakross, tákn þriðja ríkis Adolfs Hitlers, ofan við voldugt akkeri.

Hobberstad og aðrir viðstaddir komust að því á næstu dögum, að klukkan 16:40 þriðjudaginn 30. júní 2020 blasti við þeim sjón sem enginn tálkna- og hreisturslaus hafði séð í 80 ár, þýska beitiskipið Karlsruhe, 174 metra langt flaggskip í árás þýsks innrásarhers á Kristiansand við hernám Noregs 9. apríl 1940.

Fundurinn er sögulegur og kannski rétt rúmlega það þar sem Karlsruhe var, þar til í sumar, síðasta stóra þýska herskipið sem enn var ófundið á hafsbotninum umhverfis Noreg.

Árásin upphaf endalokanna

Það var snemma morguns hernámsdaginn örlagaríka fyrir 80 árum, daginn sem markaði upphaf fimm ára tímabils norskrar þjóðar undir járnhæl nasista, að Karlsruhe, með 1.100 manns innanborðs, gerði atlögu að Kristiansand í samhæfðri árás Þjóðverja á mörg skotmörk í Noregi.

Karlsruhe var hleypt af stokkunum árið 1927, vó 7.800 tonn búið 50 millimetra brynvörn og þremur fallbyssuturnum með alls níu 15 sentimetra SK/C-25-byssum auk þess sem tvær loftvarnabyssur voru á Karlsruhe, fjögur þreföld tundurskeytahlaup og rými fyrir 120 tundurdufl. Áhöfn almennt 850 manns.

Með Karlsruhe í för var fjöldi annarra skipa og er enn þann dag í dag ekki vitað með vissu hvort það voru fallbyssuskyttur Karlsruhe eða einhvers fylgiskipanna sem skutu turnspíruna af dómkirkjunni í Kristiansand, enda ekki þungavigtaratriði í gangi styrjaldarinnar.

Karlsruhe á siglingu. Með því að bera þessa mynd saman …
Karlsruhe á siglingu. Með því að bera þessa mynd saman við hljóðbylgjumynd Olympic Taurus voru öll tvímæli tekin af um að áhöfnin hefði fundið flak Karlsruhe. Ljósmynd/Bandaríski sjóherinn

Heinkel 111-sprengjuflugvélar gerðu samtímis árás á bæinn og var ein þeirra skotin niður en Kristiansand engu að síður lagður að miklu leyti í rústir með samstilltu átaki sjó- og flughers Þjóðverja, einkum svæðið á og við Tollbodgata sem hlaut viðurnefnið Hverfi sorgarinnar, Sorgens kvartal, eftir árásina vorið 1940.

Árásin á Kristiansand var þó upphafið að endalokum Karlsruhe. Helmingurinn af þeim 1.100 hermönnum, sem um borð voru, urðu eftir í Kristiansand þegar skipið hélt aftur til þýskrar hafnar síðdegis sama dag. Þangað komst það aldrei og var reyndar ekki komið lengra en rétt út fyrir skerjagarðinn þegar breski kafbáturinn Truant komst í skotfæri við það.

Tvö tundurskeyti hæfðu Karlsruhe og sjór tók að flæða inn í beitiskipið. Vélin laskaðist og rafkerfið datt út. Þar með urðu dælurnar óstarfhæfar og fljótlega kom slagsíða á vígafleyið þýska.

Friedrich Rieve aðmíráll skipaði mönnum sínum yfir í önnur þýsk herskip sem nærstödd voru og endaði á því að sökkva skipi sínu sjálfur með því að sprengja á það fleiri göt klukkan 21:50 að kvöldi 9. apríl.

Kafbáturinn Truant var glænýr þegar hann skaut beittum skeytum sínum …
Kafbáturinn Truant var glænýr þegar hann skaut beittum skeytum sínum að Karlsruhe 9. apríl 1940. Örsmáar mannverur úr áhöfninni bera stærð færleiks síns glöggt vitni. Ljósmynd/Konunglegi breski sjóherinn

Lengi var talið að Karlsruhe lægi mun nær landi en raunin er og voru þær kenningar byggðar á færslum í loggbók skipsins og framburði Rieve aðmíráls.

Frode Kvalø, fornleifafræðingur við norska sjóminjasafnið, segir í samtali við norska ríkisútvarpið NRK, að enginn vafi leiki á að þarna sé Karlsruhe fundið og sýnir því til jarteikna samanburð sinn á sónarmynd Olympic Taurus og loftmynd bandaríska sjóhersins sem tekin var af skipinu á siglingu.

„Það er vel varðveitt, stendur á kilinum og ber fjölda sýnilegra einkenna sem auðvelda samanburð. Þetta er Karlsruhe,“ segir fornleifafræðingurinn.

Lærdómur um túlkun heimilda

Karlsruhe er þar með lengsta skip sem nokkru sinni hefur fundist neðansjávar á norsku hafsvæði og telst eiginlegur „fundur“, það er skip sem ekki var vitað fyrir hvar væri, andstætt stórum þýskum herskipum, sem settu sitt mark á sögu Noregs í síðari heimsstyrjöldinni og vitað er hvar liggja hinstu hvílu, svo sem Dresden, Tirpitz og Blücher.

May-Brith Ohman er prófessor í sagnfræði við Háskólann í Agder. Hún segir flak Karlsruhe bjóða upp á nýjan fróðleik um fyrstu stundir þeirra fimm ára sem þýskt hernám Noregs átti eftir að vara.

„Þetta kennir okkur sitthvað um túlkun heimilda þegar litið er til þeirra upplýsinga sem við lengi höfum haft um hvar skipið sökk miðað við hvar það svo í raun fannst,“ segir Ohman við NRK.

Karlsruhe með augum hljóðbylgjuskynjunar borpallaþjónustu- og sæstrengjaeftirlitsskipsins Olympic Taurus.
Karlsruhe með augum hljóðbylgjuskynjunar borpallaþjónustu- og sæstrengjaeftirlitsskipsins Olympic Taurus. Sónarmynd/Olympic Taurus

Norska landhelgisgæslan mun standa vörð um flakið fyrst um sinn, en talið er að í því geti enn verið um milljón lítrar af olíu auk annarra efna sem haft gætu í för með sér umhverfisspjöll. Þá liggur enn ekki fyrir hvort flakið verði flokkað sem vot gröf, það fer eftir því hvort jarðneskar leifar þeirra, sem létust þegar bresku tundurskeytin skullu á Karlsruhe, voru skildar eftir um borð eður ei.

Ótrúleg heppni árið 1977

Það sem upp úr stendur þó, að mati sagnfræðiáhugamannsins og verkfræðingsins Hobberstad, er sú ótrúlega heppni að sæstrengurinn, sem er reyndar fjórir strengir milli Noregs og Danmerkur og lagðir voru á hafsbotninn árið 1977, þegar tæknin var mun frumstæðari og fjarstýrðir skoðunarkafbátar ekki í boði, skyldi ekki flækjast í flaki gamla beitiskipsins, sem að hans sögn hefði getað haft stórtjón í för með sér á köplunum sem flytja rafmagn frá Kristiansand til Danmerkur sem jafnast á við alla raforkunotkun Óslóar.

NRK

Aftenposten (læst grein en forvitnileg ljósmynd)

Nettavisen

NTB

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert