Það kvað við nýjan tón í málflutningi Stefans Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, í viðtali í fréttaskýringarþætti sænska ríkissjónvarpsins, Aktuellt, í fyrradag. Þar játaði Löfven í fyrsta sinn að glæpagengi sem hafa hreiðrað um sig í landinu mætti rekja til mikils fjölda innflytjenda sem komið hafa til landsins á undanförnum árum. „Með miklum innflytjendastraumi er ljóst að við getum ekki staðið undir aðlögun fólks. Þannig eykst hættan á vandamálum sem við sjáum í dag. Það er dagsljóst,“ sagði Löfven i þættinum.
Þrátt fyrir að glæpatíðni í Svíþjóð sé almennt lág, hafa ofbeldisbrot og skotárásir sem rekja má til glæpagengja farið vaxandi undanfarin ár, og kemur landið illa út úr samanburði við nágrannaþjóðir í þeim efnum. Um þrjúhundruð voru í landinu í fyrra og létust 32. Hefur fjöldi slíkra árása fimmfaldast frá árinu 1996, en Löfven og flokkur hans, Sósíaldemókratar, hafa hingað til ekki viljað tengja ris glæpagengja við aukinn fjölda innflytjenda — eitthvað sem flokkar á borð við þjóðernisflokkinn Svíþjóðardemókrata hafa hamrað á.
„Við verðum að takast á við það sem er að, hver sem orsök þess er. En ég vil ekki tengja afbrot við uppruna fólks,“ sagði forsætisráðherrann sem segist hafa áhyggjur af því að innflytjendur skorti tækifæri til að aðlagast sænsku samfélagi. Allir sem geta unnið eiga að vinna, segir Löfven, en ef börn alast upp við að fullorðnir í kringum þá séu ekki í vinnu haldi þau kannski að það sé hefðbundið líf og eigi á meiri hættu að leiðast á glapstigu.
Í viðtali við sænska ríkisútvarpið sagði Mats Löfving, aðstoðarríkislögreglustjóri Svíþjóðar, að um fjörutíu „glæpafjölskyldur“ hefðu hreiðrað um sig í Svíþjóð. „Þessar fjölskyldur hafa komið í þeim eina tilgangi að skipuleggja glæpi. Þær vinna að því að auka völd sín [...] og þær ilja græða peninga. Þetta gera þær í með fíkniefnabrotum, ofbeldisbrotum og kúgunum,“ sagði Löfving aðstoðarríkislögreglustjóri.
Margir Svíar horfa til Danmerkur sem fyrirmyndar í því hvernig takast megi á við vandamál tengd glæpagengjum, og hefur umræða um „dönsku leiðina“ verið fyrirferðarmikil í sænskum fjölmiðlum síðustu vikur og mánuði.
Í vikunni bauð Ulf Kristersson, leiðtogi sænska hægriflokksins Moderaterna, skoðanabróður sínum og fyrrverandi dómsmálaráðherra Danmerkur Søren Pape Poulsen úr Kristilega þjóðarflokknum til viðræðna um málefni glæpagengja.
Poulsen var dómsmálaráðherra frá árinu 2016-2019 en á þeim tíma, og raunar nokkur ár á undan, hertu dönsk stjórnvöld til muna lög gegn skipulögðum glæpahópum. Meðal þess sem gert hefur verið í Danmörku er að greiða mönnum fé fyrir að koma upp um skipulagða glæpahópa, heimila nafnlausan vitnisburð fyrir dómi, hætta að veita fólki undir 18 vægari refsingu fyrir glæpi (þetta verður innleitt í Svíþjóð árið 2022) og, umdeildasta aðgerðin, að tvöfalda refsingu fyrir glæpi ef glæpamaðurinn tilheyrir gengi.
„Það sem þið getið gert hér, sem hefði einhverja þýðingu, væri að setja lágmarksfangelsisdóma fyrir skotvopnaburð, tvöfalda refsingu fyrir meðlimi glæpagengja og auka möguleikann á að vísa þeim úr landi. Við sáum að það virkaði heima [í Danmörku] og ég held það muni líka gera það hér [í Svíþjóð],“ sagði Poulsen við sænska fréttamenn að loknum fundi þeirra Kristerssons.
Hvort breytingar í þessa átt verði gerðar í Svíþjóð á næstunni verður tíminn að leiða í ljós. Í leiðara dagblaðsins Dagens Industri, sem vill að Svíar taki sér Dani til fyrirmyndar, segir að Svíar séu á réttri leið en að enn gangi breytingar of hægt. Innan ríkisstjórnar og stuðningsflokkanna, Sósíaldemókrata, Græningja, Miðflokksins og Frjálslyndra, finnist enn andstaða við róttækar breytingar ekki síst meðal Græningja.