Yfir hálf milljón flýr eldana

Hálf milljón íbúa Oregon-ríkis hefur verið flutt á brott vegna skógarelda sem loga stjórnlaust á Vesturströnd Bandaríkjanna. Að sögn yfirvalda í ríkinu verða enn fleiri fluttir á brott því það sé forgangsatriði hjá slökkviliðsmönnum að bjarga mannslífum. Um 3.642 ferkílómetrar lands hafa brunnið.

Tugir elda loga en óvenjuheitt er í veðri, hvasst og þurrt í ríkinu. Grunur leikur á að minnsta kosti einn eldanna sé verk brennuvarga. Að sögn Kate Brown, ríkisstjóra í Oregon, er ekki vitað með fullri vissu hversu margir hafi farist í eldunum en að staðfest sé að fjórir séu látnir. 

Eldar loga víðar en í Oregon því yfir 100 eldar loga nú í 12 ríkjum Bandaríkjanna. Flestir þeirra loga í Oregon, Kaliforníu og Washington og í einhverjum tilvikum hafa heilu bæjarfélögin brunnið til grunna. Í Kaliforníu eru að minnsta kosti tíu látnir í eldunum. 

Tæplega 18 þúsund ferkílómetrar lands hafa brunnið í ríkjunum á Vesturströndinni.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert