Svíar aflétta ferðatakmörkunum

66 starfsmenn kráa í eigu Wetherspoon-keðjunnar hafa greinst með COVID-19.
66 starfsmenn kráa í eigu Wetherspoon-keðjunnar hafa greinst með COVID-19. AFP

Sænsk yfirvöld hafa aflétt ferðatakmörkunum til og frá Bretlandi og tekur breytingin gildi í dag. Fyrir nokkrum dögum afléttu bresk yfirvöld ferðatakmörkunum til og frá Svíþjóð.

Breska kráarkeðjan JD Wetherspoon hefur greint frá því að 66 starfsmenn keðjunnar hafi greinst með kórónuveiruna. Yfir 41 þúsund manns starfa hjá keðjunni og á flestum krám keðjunnar hafi enginn starfsmaður greinst með COVID-19.

Forstjóri JD Wetherspoon, Tim Martin, segir ekkert hæft í ummælum Hugh Pennington, prófessors og sérfræðings í smitsjúkdómum, um að hættulegt sé að heimsækja krár. 

Svíar hafa aflétt flestöllum ferðatakmörkunum til ríkja Evrópu en enn eru í gildi viðvaranir varðandi ferðalög til landa eins og Írlands, Finnlands og Möltu.

Frá og með deginum í dag telja sænsk yfirvöld í lagi að ferðast til Íslands, Danmerkur, Noregs, Andorra, Austurríkis, Belgíu, Búlgaríu, Kýpur, Tékklands, Króatíu, Frakklands, Þýskalands, Grikklands, Ungverjalands, Ítalíu, Liechtenstein, Lúxemborgar, Mónakó, Hollands, Póllands, Portúgal, Rúmeníu, San Marinó, Spánar, Sviss, Bretlands og Páfagarðs. 

Aftur á móti telur sænska ríkisstjórnin ekki óhætt að ferðast til Finnlands og Eystrasaltsríkjanna þrátt fyrir að samkvæmt upplýsingum frá Sóttvarnastofnun Evrópu séu það þau ríki þar sem fæst smit eru á hverja 100 þúsund íbúa. 

Frétt The Local

Frétt BBC

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert