Evrópusambandið (ESB) sýnir í heild sinni samstöðu með Íslandi, Noregi og Sviss hvað kaup á bóluefnum varðar, að sögn Richards Bergströms, umsjónarmanns bóluefna í Svíþjóð. Noregur og Sviss standa utan ESB, rétt eins og Ísland. Noregur fær að kaupa eitt prósent af öllum bóluefnakvóta ESB og Svíþjóð tvö prósent, en Svíþjóð annast milligöngu um bóluefni gegn kórónuveirunni til Íslands.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í umfjöllun norska ríkisfjölmiðilsins NRK um bóluefni.
Ný rannsókn sýnir fram á að 51% mögulegra bóluefna gegn veirunni hafa þegar verið keypt af ríkustu löndum heims en í þeim búa um 13% jarðarbúa.
Bresku hjálparsamtökin Oxfam vara við þessari þróun og telja að bóluefni eigi að vera ókeypis og fyrir alla.
„Framleiðendurnir hafa ekki tækifæri á að framleiða nóg af bóluefni fyrir alla sem þurfa á því að halda. Jafnvel þótt allir bóluefnakandídatar séu samþykktir munu tveir þriðju íbúa heims enn vera án bóluefnis, að minnsta kosti til ársins 2022,“ segir í yfirlýsingu frá Oxfam.
Ólíklegt þykir að öll bóluefni lyfjafyrirtækjanna sem nú keppast við þróun bóluefna verði samþykkt.
Fyrr í vikunni komst rannsóknarhópur að því að í aðstæðum þar sem rík lönd kaupa upp öll bóluefni geti tvöfalt fleiri dáið úr COVID á heimsvísu. Annars vegar könnuðu vísindamennirnir hvað myndi gerast ef 50 rík lönd keyptu fyrstu tvo milljarða skammta af bóluefninu og hins vegar hvað myndi gerast ef bóluefnið myndi dreifast jafnt yfir heimsbyggðina.
Vísindamennirnir komust að því að mögulegt er að forðast 61 prósent dauðsfalla ef bóluefninu er dreift en aðeins 33 prósent dauðsfalla ef ríkar þjóðir kaupa upp þau bóluefni sem framleidd verða.
Svíþjóð vinnur að því að landa sjö samningum við lyfjafyrirtæki sem framleiða bóluefni gegn kórónuveirunni. Með þeim samningum sem þegar eru til staðar geta Norðmenn fengið þrjár milljónir bóluefnaskammta. Svíþjóð heldur utan um endursölu til Noregs og Íslands. Norðmenn muni setja 3,8 milljarða norskra króna í bóluefnainnkaup á næsta ári, samkvæmt fjárlögum fyrir næsta ár.
Oxfam telja þetta dæmi um kerfi þar sem rík lönd hafa forskot en stór hluti jarðarbúa þurfi að bíða lengi eftir bóluefni.
Eins og áður hefur komið fram þurfa Íslendingar um 550.000 skammta af bóluefni. Er þá miðað við að um 75% þjóðarinnar verði bólusett til að ná fullnægjandi hjarðónæmi og að hver einstaklingur verði bólusettur tvisvar.