Engin hefðbundin Nóbelsverðlaunahátíð verður í Stokkhólmi þetta árið.
Verðlaunin verða veitt en afhendingin fer fram rafrænt í beinni sjónvarpsútsendingu þar sem hver þátttakandi verður í sínu heimalandi. Frá þessu var greint í dag og ástæðan vitaskuld kórónuveirufaraldurinn.
„Við sjónvörpum þessu beint frá Ráðhúsinu [í Stokkhólmi]. Hver verðlaunahafi fyrir sig getur verið í sænsku sendiráði eða háskólanum sínum,“ segir Lars Heikensten, formaður Nóbelsstofnunarinnar í samtali við sænska ríkissjónvapið, SVT.
Hann segir ákvörðunina hafa verið auðvelda. „Þegar í vor höfðum við ákveðið að halda ekki hefðbundna verðlaunahátíð. En við vildum fylgjast með sumrinu og sjá hvað myndi ske áður en við gæfum nokkuð frá okkur. Við vildum ekki vinda okkur of snemma,“ segir Heikensten.
Áður hafði verið greint frá því að Nóbelveislan (s. Nobelfesten), vegleg veisla í boði Svíakonungs sem haldin er að verðlaunaathöfninni lokinni, yrði ekki haldin í ár, en nú hefur verið tekin ákvörðun um að blása verðlaunaathöfnina af sömuleiðis.
Ár hvert eru Nóbelsverðlaun veitt í Stokkhólmi í flokki bókmennta, eðlisfræði, efnafræði, læknisfræði og hagfræði (þótt hin síðastnefndu séu strangt til tekið verðlaun veitt í minningu Nóbels en ekki eiginleg Nóbelsverðlaun). Þá eru friðarverðlaun Nóbels veitt í Ósló. Þegar hefur verið greint frá því að hátíðarathöfnin í Ósló verði smærri í sniðum þetta árið en vant er, en ekki liggur þó fyrir hvort verðlaunahafanum verði boðið til borgarinnar.