Fordæmir teikningar Charlie Hebdo af spámanninum

Imran Khan, forsætisráðherra Pakistans.
Imran Khan, forsætisráðherra Pakistans. AFP

Forsætisráðherra Pakistan fordæmir skopteikningar sem birtust í franska tímaritinu Charlie Hebdo á dögunum en hún sýndi mynd af Múhameð spámanni, myndgerving hvers er bönnuð í íslamstrú. Sagði forsætisráðherra Pakistan, Imran Khan, að hann óskaði eftir aðgerðum að hálfu Sameinuðu þjóðanna til þess að berjast geng uppgangi múslimahaturs.

Fjórir eru særðir og þar af tveir alvarlega eftir að hnífastunguárás var gerð skammt frá fyrrum húsakynnum Charlie Hebdo í dag.

Khan sagði í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, sem nú stendur yfir, að uppgangur þjóðernishyggju í heiminum undanfarin ár hafi gefið múslimahatri byr undir báða vængi.

„Atvik eins og helgispjöll Charlie Hebdo með myndbirtingu sinni af Múhameð spámanni eru dæmi um þetta,“ sagði Khan í ræðu sinni. „Þetta allsherjarþing ætti að koma á fót alþjóðadegi baráttunnar gegn múslimahatri og taka höndum saman til þess að vinna bug á þessari ósæmd,“ bætti hann við.

Tólf manns létust þegar öfgasinnaðir múslimar réðust inn á ristjórnarskrifstofu Charlie Hebdo í París í janúar 2015 og hófu þar skothríð. Skopteikningar höfðu þá birst skömmu áður í Charlie Hebdo sem sýndu Múhameð spámann. Myndirnar voru birtar á nýjan leik fyrir stuttu í tilefni af því að réttarhöld hófust yfir 14 meintum vitorðsmönnum árásarmannana.

Franskur maður les fyrsta tölublað Charlie Hebdo sem britist eftir …
Franskur maður les fyrsta tölublað Charlie Hebdo sem britist eftir árásina árið 2015, þar sem 12 manns létust. AFP

Í dag var svo gerð hnífastunguárás skammt frá fyrrum húsakynnum Charlie Hebdo þar sem fjórir særðust og tveir alvarlega. Einn var handtekinn, grunaður um verknaðinn og er málið rannsakað sem hryðjuverk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert