Undirbúningur fyrir fyrstu kappræður bandarísku forsetakosninganna er nú hafinn. Kappræðurnar verða haldnar á þriðjudaginn í næstu viku, en viðburðurinn fer fram í Case Western Reserve háskólanum í Cleveland í Ohio-ríki. Spyrill verður Chris Wallace, þáttarstjórnandi á sjónvarpsstöðinni Fox News.
Mikið er undir í kappræðunum, en frambjóðendur hafa þar tækifæri til að bæta við fylgi og ná til óákveðinna kjósenda. Þátttakendur í kappræðunum að þessu sinni eru Bandaríkjaforseti, Donald Trump og forsetaefni demókrata, Joe Biden.
Gera má ráð fyrir að laust sæti dómara í Hæstarétti og heimsfaraldur kórónuveiru verði í brennidepli í umræddum kappræðum. Kappræðurnar verða alls 90 mínútur og skiptast í sex 15 mínútna hluta, en þeirra á milli verða auglýsingahlé.
Baráttan um Hvíta húsið hefur harnað mikið undanfarin misseri, en Joe Biden er sem stendur með eilítið forskot á Trump í helstu barátturíkjum. Hins vegar getur margt breyst að loknum kappræðum. Auk framangreindra kappræða fara fram tvær aðrar kappræður, önnur í Miami 15. október og hin í Nashville 22. október. Kosningarnar sjálfar fara svo fram 3. nóvember nk.