Spænska ríkisstjórnin hefur hvatt yfirvöld í Madríd til að herða takmarkanir vegna útbreiðslu kórónuveirunnar í borginni. Spænsk yfirvöld vara við því að mikil hætta steðji að íbúum Madrídar ef takmarkanir verða ekki hertar.
Madríd framlengdi takmarkanir á helstu smitsvæðum á í gær en hafnaði víðtækum lokunum innan borgarinnar. Í dag sagði heilbrigðisráðherra Spánar, Salvador Illa, að núverandi takmarkanir gengju ekki nægilega langt. Illa sagði að nú væri tími til kominn til að grípa til aðgerða og taka stjórn á útbreiðslu faraldursins.
„Það steðjar mikil hætta að íbúum og þeim sem búa í nágrenni við Madríd,“ sagði Illa og kallaði eftir því að stjórnvöld borgarinnar settu „heilsu borgaranna í fyrsta sæti“ og kæmu á lokunum í allri borginni.
Svæðisyfirvöld stjórna því hvaða aðgerðum er beitt svo ríkisstjórnin getur ekki gripið inn í.
Madríd er á nýjan leik orðið helsta smitsvæði Spánar, rétt eins og þegar faraldurinn stóð sem hæst þar í landi fyrr á þessu ári. 12.272 ný smit greindust á Spáni á föstudag og eru smitin nú orðin 716.481. Um er að ræða hæsta fjölda smita í allri vestanverðri Evrópu.