Donald Trump Bandaríkjaforseti og Joe Bide forsetaefni demókrata mætast í fyrsta sinn í kappræðum vegna forsetakosninganna sem fram eiga að fara í byrjun nóvember. Kappræðurnar hefjast klukkan eitt eftir miðnætti að íslenskum tíma.
Mikið er undir í kappræðunum, en frambjóðendur hafa þar tækifæri til að bæta við fylgi sitt og ná til óákveðinna kjósenda. Viðburðurinn fer fram í Case Western Reserve-háskólanum í Cleveland í Ohioríki. Spyrill verður Chris Wallace, þáttarstjórnandi á sjónvarpsstöðinni Fox News.
Gert er ráð fyrir að kappræðurnar standi í níutíu mínútur og að ekkert auglýsingahlé verði á þeim.