Kosningamartröð samfélagsmiðlanna

Donald Trump Bandaríkjaforseti og mótframbjóðandi hans Joe Biden.
Donald Trump Bandaríkjaforseti og mótframbjóðandi hans Joe Biden. AFP

Hugsanleg atburðarás í kjölfar forsetakosninganna í Bandaríkjunum veldur yfirmönnum samfélagsmiðla martröðum.

Venjulega líða aðeins nokkrar klukkustundir frá því að kosningum lýkur og þar til niðurstöður liggja fyrir, en í þetta sinn munu líklega líða dagar og jafnvel vikur þar til sigurvegari kosninganna verður tilkynntur vegna mikils fjölda póstatkvæða.

Þetta tímabil, það er frá því að kjörstaðir loka og þar til staðfestar niðurstöður liggja fyrir, telja yfirmenn samfélagsmiðla að geti ýtt Bandaríkjunum fram af brúninni, með fullyrðingum um sigurvegara á báða bóga.

Fari svo að bæði Donald Trump og Joe Biden lýsi sig sigurvegara gæti farið svo að ofbeldi geti brotist út í samfélaginu, sem er gjörsamlega klofið.

Fari svo að bæði Donald Trump og Joe Biden lýsi …
Fari svo að bæði Donald Trump og Joe Biden lýsi sig sigurvegara gæti farið svo að ofbeldi geti brotist út í samfélaginu, sem er gjörsamlega klofið. AFP

Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook, tilkynnti fyrir þremur vikum að hann væri áhyggjufullur. Samfélagið væri svo klofið, og ef niðurstöður tækju daga og jafnvel vikur að berast myndi það auka verulega líkurnar á uppþoti.

Samfélagsmiðlarisarnir hafa því tekið höndum saman í því sem virðist fordæmalaus samvinna af þeirra hálfu til að sviðsetja mismunandi niðurstöður kosninganna og hvernig best sé að bregðast við.

Ein sviðsetninganna veldur yfirmönnum samfélagsmiðlanna hvað mestum áhyggjum. Póstatkvæðin eru talin munu hallast að Biden, á meðan niðurstöður talninga atkvæða frá kjörstöðum eru taldar munu vera Trump í hag. Þetta er vegna þess að Trump hefur kvatt sína fylgjendur til að kjósa í persónu þar sem hann segir að póstatkvæðagreiðslunni hafi verið eða muni verða hagrætt, þó engin gögn styðji fullyrðingar forsetans þess efnis. Demókratar hafa á hinn bóginn hvatt sína stuðningsmenn til að greiða atkvæði með pósti til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar.

Af þessum sökum gætu niðurstöður af kjörstöðum annars vegar og úr póstatkvæðagreiðslu orðið skakkar og í þessari sviðsmynd myndi Trump því líklega „sigra“ samkvæmt þeim atkvæðum sem greint verður frá á kosninganótt, en á hann myndi fara að halla þegar niðurstöður úr póstatkvæðagreiðslunni færu að birtast.

Hvað gæti gerst?

En hvað myndi Trump gera í þessum aðstæðum? Næstum allt sem hann hefur sagt og tíst hingað til bendir til þess að hann muni lýsa yfir sigri.

„Við verðum að fá að vita niðurstöðurnar á kosninganótt, ekki dögum, mánuðum eða jafnvel árum seinna,“ tísti hann í júlí. Þá hefur hann ítrekað talað um kosningasvik í tengslum við póstatkvæðagreiðsluna og myndi hann því mjög líklega vefengja niðurstöðurnar, falli þær Biden í hag. Auk þess hefur hann fullyrt að niðurstöðurnar, falli þær á þann veg, muni enda fyrir hæstarétti.

Í sveitarstjórnar- og þingkosningunum árið 2018 krafðist Trump þess jafnframt að frambjóðendur Repúblikanaflokksins í Flórída til öldungadeildarþingsins yrðu lýstir sigurvegarar á kosninganótt, þrátt fyrir að fjöldi atkvæða hefði borist síðar og verið ótalinn.

Það bendir því flest til þess að Trump muni ekki bíða eftir talningu atkvæðanna úr póstatkvæðagreiðslunni. Það er hérna sem yfirmenn samfélagsmiðlarisanna ætla að stíga inn.

Líklegt er að Trump muni lýsa yfir sigri á Twitter og á Facebook. Samfélagsmiðlarnir hafa hins vegar sagt að það muni þeir ekki leyfa. Twitter kveðst ætla að merkja eða fjarlægja misvísandi upplýsingar sem ætlað er að grafa undan trausti almennings á kosningakerfinu, svo sem yfirlýsingum um sigurvegara kosninga áður en endanlegar niðurstöður liggja fyrir og hafa verið staðfestar.

Þá ætlar Facebook að neita auglýsingum frá kosningaherferðum sem lýsa sigri of snemma, og fjarlægja allar misvísandi upplýsingar um kosningarnar, auk þess sem Google ætlar að stöðva kosningaauglýsingar eftir kjördag.

Hættulegt augnablik í sögu samfélagsmiðla

Möguleikinn er þá að Trump lýsi yfir sigri en að honum sé meinað að láta orðið berast fyrir tilstilli samfélagsmiðla. Er þetta talið geta skapað eitt hættulegasta augnablik í sögu samfélagsmiðla, sem munu þurfa að ritskoða þúsundir pólitískra færsla.

Þegar líður á er líklegt að mikill hiti komist í leikinn og gætu báðir frambjóðendur hótað hefndum vegna ákvarðana samfélagsmiðla hvað skuli ritskoðað og hvað fái á standa. 

Meðal þess sem Trump hefur áður hótað samfélagsmiðlum er að fellar úr gildi lög sem vernda samfélagsmiðlana gegn því að þurfa að axla ábyrgð á því efni sem notendur þeirra birta. Þá hafa demókratar löngum haft áhyggjur af miklum völdum samfélagsmiðla og hvernig þeir geta skapað aukinn klofning innan samfélagsins.

Auðvitað er mögulegt að ekkert af þessu gerist. Trump gæti unnið öruggan sigur og Biden játað sig sigraðan þegar í stað. Eða sigur Bidens gæti legið fyrir strax á kosninganótt og Trump gæti sætt sig við ósigurinn.

En flest bendir til þess að svo verði ekki, og það gæti þýtt alvarleg vandræði, ekki bara fyrir Bandaríkin heldur fyrir framtíð samfélagsmiðla.

Umfjöllun BBC

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert