Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hefur greinst smitaður af kórónuveirunni og einnig eiginkona hans, Melania Trump. Þau eru bæði komin í einangrun. Forsetinn er 74 ára gamall og því í áhættuhópi. Hann greindi frá smitinu á Twitter og segir þar: „Við munum komast í gegnum þetta saman.“
Trump-hjónin greindust í kjölfar þess að einn af nánustu ráðgjöfum hans greindist með COVID-19.
Hope Hicks, sem er 31 árs gömul, er sú nánasta úr ráðgjafahópi Trumps til að smitast af COVID-19 en hún var samferða Trump í flugvél forsetans á sjónvarpskappræðurnar í Cleveland í Ohio fyrr í vikunni.
Læknir forsetahjónanna segir að þau séu bæði við góða heilsu og að Donald Trump muni halda áfram að sinna skyldum sínum frá Hvíta húsinu þar sem hann er nú í einangrun.
Forsetaembættið hefur aflýst fyrirhuguðu kosningaferðalagi Trumps til Flórída sem átti að hefjast í dag. Aðeins 32 dagar eru til kjördags.
Forsetaframbjóðandi demókrata, Joe Biden, er með meira fylgi en Trump í skoðanakönnunum en óvíst er hvaða áhrif veikindin hafa á áform Trumps hvað varðar forsetaframboðið.
Útlit er fyrir að hann þurfi að aflýsa einhverjum kosningaferðalögum sem eru á dagskrá hans um helgina og í næstu viku.
Í yfirlýsingu frá lækni Trumps, Sean Conley, segir að forsetinn og eiginkona hans séu bæði við góða heilsu og stefni á að halda sig heima í Hvíta húsinu þar til þau ná bata. Conley segist ekki eiga von á öðru en forsetinn geti sinnt embættisskyldum sínum þar til hann nær bata.
Fréttirnar af smiti Trump-hjónanna komu fljótlega eftir að Trump greindi frá því að Hicks hefði smitast af kórónuveirunni. Hún var eins og áður sagði samferða þeim í forsetaþotunni til Cleveland og eins var hún með í för á kosningafundi í Minnesota á miðvikudag. Auk þess að vera saman um borð í þotunni sátu þau þröngt í þyrlu í vikunni.
Trump greindi frá því að Hicks væri smituð í viðtali við Fox News seint í gærkvöldi og að hann hefði farið í skimun. „Þið vitið að ég eyði miklum tíma með Hope og það gerir forsetafrúin einnig,“ sagði Trump í viðtalinu.
Þar kom fram í máli Trumps að Bandaríkin væru komin yfir það versta í COVID-19-faraldrinum en hann hefur kostað yfir 200 þúsund Bandaríkjamenn lífið. Trump notast nánast aldrei við grímu og hefur sagt að hann fari reglulega í sýnatöku.
Forsetinn hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að halda fjölmenna kosningafundi þar sem fáir stuðningsmenn nota grímu. Eins hefur hann sent þjóð sinni misvísandi skilaboð um grímunotkun.
Hlutabréfavísitalan í Tókýó, Nikkei 225, lækkaði um 0,67% eftir að fréttist að Trump hefði greinst með COVID-19 en hlutabréfamarkaðir í Bandaríkjunum voru lokaðir þegar Trump birti færsluna á Twitter undir morgun að íslenskum tíma.